Wednesday, March 10, 2010

Sarpurinn

Sarpur dagsins er ekki alveg týpískur en er tilkominn vegna geisladiskaimportverkefnisins sem ég stend í þessa dagana. Ég er sem sagt að færa alla diskana yfir á mp3 og það er EKKERT undanskilið, ekki einu sinni Gary Barlow smáskífan sem ég sver að einhver prangaði upp á mig saklausa táningsstúlkuna (hehemm). Sarpur dagsins fjallar því ekki um eina plötu heldur 90's tónlistina sem ég fann í diskasafninu. Ójá.



Fyrsta lagið kemur af meistaraverkinu U Got 2 Know með hljómsveitinni Cappella sem ég keypti í Bókaskemmunni á Akranesi á sínum tíma. Þetta var dæmigert 90's dúó með ljóshærði dreddaðri söngkonu sem veinaði eina línu aftur og aftur á milli þess sem svarti vinur hennar "rappaði". Hljómsveitin sjálf var eiginlega ítölsk og var víst hugarfóstur einhvers Ítala en það var breytilegt hverjir performuðu. Á þessari plötu frá árinu 1994 voru það Bretarnir Kelly Overett og Rodney Bishop sem sáu um flutninginn. Munið þið eftir þessu lagi?

Cappella - U Got 2 Let The Music



Næsta lag kemur frá hljómsveit sem fylgdi sömu formúlu og Cappella en var miklu vinsælli. Það er auðvitað gullpar næntísins í 2 Unlimited. Það sorglega við það að ég skuli eiga plötuna Real Things (limited edition, no less) er það að mig langaði virkilega í hana og sparaði pening til að geta keypt hana. Ég var villuráfandi, hvað get ég sagt. Ég man líka alveg að áður en ég átti pening fyrir plötunni þá hlustaði ég á Bylgjuna mörg kvöld í röð til að reyna að ná að taka titillag plötunnar upp á kassettu. Þvílíkur sigur þegar það tókst loksins!

2 Unlimited - The Real Thing



Til að þið gubbið nú ekki alveg yfir ykkur þá skulum við enda Sarpinn á jákvæðari næntís nótum. Ég fann nefnilega í fórum mínum gullmolann The Dungeon Tapes frá árinu 1995 með projectinu hans Kenny "Dope" Gonzalez sem kallaðist The Bucketheads. Þessa plötu keypti ég líka í Bókaskemmunni á Akranesi en veiddi hana upp úr 99 krónu körfunni ásamt Von með Sigur Rós. Ég vildi óska að ég gæti sagst hafa verið svona töff og sniðug en ég keypti þessar plötur bara af því þær kostuðu 99 krónur. Hvern hefði grunað að eftir 15 ár stæðu þær upp úr Bókaskemmuplötunum öllum?

The Bucketheads - The Bomb! (These Sounds Fall Into My Head) (Kenny's Remix)

No comments: