Friday, February 20, 2009

Topp 5 Íslendingar - Unnur Birna

Íslendingar eru svo heppnir að eiga ótrúlega margar perlur
og ég held að við þyrftum að setja inn sérstakan lista
fyrir það - Topp 5 ættjarðarlög og Topp 5 lög við
hefðbundin ljóð.
Hvernig væri það?

Það var mjög erfitt að velja, ég gæti gert Topp 25 íslensk
lög, en ég verð að kötta 20 af...



Mánar 1971 - Sandkorn


Fyrst ætla ég að byrja á pabba mínum og hljómsveitinni
hans, Mánum. Sandkorn heitir lagið og höfundur þess Björn
Þórarinsson (Bassi) en er textinn eftir Ómar Halldórsson
sem gerði marga texta fyrir hljómsveitina. Hljómagangur
sem kemur á óvart, grípandi hippalegt lag og skemmtileg
7 og 5 taktpæling í lokin. Guðmundur Benediktsson, pabbi
Péturs Arnar í Buff (fyrrverandi Jesús Kristar
Súperstjörnur) syngur lagið og sveitin raddar. Og við
erum öll pínulítil sandkorn...


Jón Leifs - Requiem



Fyrsta framúrstefnulega tónskáld okkar Íslendinga (og eina
almennilega að mínu mati) sem náði ótrúlegum árangri úti í
hinum harða heimi á Seinni heimstyrjaldarárunum. Hlustum
hér á hans Requiem. Fólk ætti að kannast við upphafsstefið
sem er gegnumgangandi þema - hann skiptir milli stórrar
og lítillar 3undar sem gefur okkur bæði glaðlega og sorglega
tilfinningu og þótt tónverkið sé ekki atonal, einsog svo
mörg hans verk, þá getum við ekki tilgreint tóntegundina
vegna þessara skörpu skipta úr dúr í moll. Hljómar einsog
vögguvísa kyrjuð af gamalli konu í torfkofa meðan kári
blæs og Móri og Skotta leika sér í fjárhúsunum...


Haukur Morthens - Þrek og tár



Þótt höfundur lagsins, Otto Lindblad sé frændi okkar frá
Svíþjóð þá held ég að við getum vel kallað þetta mjög svo
íslenska heild. Með Hauki Morthens og Erlu Þorsteinsdóttur
og ótrúlega fallegum texta Guðmundar Guðmundssonar sem
leiðir okkur út í íslenskt umhverfi.
- Viltu með mér vaka er blómin sofa?


Mínus - Throwaway Angel Acoustic



Ég set þetta lag ekki bara vegna þess að ég spila á fiðlu...
Skemmmtilegar hljóðfæra- og sándpælingar t.d. er bassinn
spilaður á fótstigið orgel og Rhodes notaður í örlítið
stef. Þegar strákarnir sýndu mér myndbandið fyrst gapti ég.
Myndbandið sýnir götubörn í Úkraínu og þeirra daglega líf -
og þau hreinsuðu sprautunálar með vatni og héldu að þá væru
þau örugg...


Mánar 2005 - Móðir jörð



Fyrst ég byrja á pabba mínum verð ég að enda á honum líka.
Textann gerði hins vegar mamma mín, Sigríður Birna
Guðjónsdóttir - og þetta er samið þegar ákveðið var að
sökkva landsvæði á stærð við Hvalfjörð. Myndirnar tók Ómar
Ragnarsson. Íslenskt Atlantis!

1 comment:

Anonymous said...

púff... Þrek og Tár, það gerist ekki mikið flottara, var í miklum vanda með það lag.