Tuesday, December 1, 2009

Sarpurinn


Viðfangsefni Sarpsins í þetta sinn er sjötta og næstsíðasta plata bresku hljómsveitarinnar Blur sem heitir því stutta og laggóða nafni 13.

Platan kom út árið 1999 og með henni færðu Blur sig enn lengra frá britpoppinu en þeir höfðu gert með næstu plötu á undan, Blur. Þó sú plata hafi átt sína spretti þá er þessi mun heilsteyptari og kannski hafði samstarfið við pródúserinn William Orbit eitthvað um það að segja. Lögin sjálf eru nefnilega í raun mjög ólík innbyrðis en platan hefur þó eitthvað lím sem bindur þau saman. Besta lýsingin sem ég hef heyrt á því er að þarna sé einfaldlega loks að finna blur eða móðu sem hæfir hljómsveitarnafninu.

Ég man mjög skýrt eftir því að þegar ég rauk út í búð átján ára gömul að kaupa nýjustu afurð uppáhalds hljómsveitarinnar minnar og stakk henni í geislaspilarann þá helltust yfir mig þvílík vonbrigði að ég var gráti næst. Hvaða rugl var þetta? Þar sem ég átti nú engar fúlgur fjár á þessum tíma voru geisladiskakaup algjör lúxus og ég átti því til að þrjóskast við að hlusta á plötur þó mér þætti þær hundleiðinlegar við fyrstu hlustun. Þannig síaðist þessi plata smám saman inn í hausinn á mér og á endanum fattaði ég að hún var í raun ekkert hundleiðinleg heldur bara alveg frábær. Þetta sama átti svo eftir að gerast með Trompe Le Monde með Pixies en það er kannski bara efni í annan Sarp að tala um það.

Eins og ég sagði þá eru lögin á plötunni ansi ólík en vissulega eru smáskífurnar þrjár þau lög sem grípa mann fyrst og standa í raun upp úr sem eftirminnilegustu lögin. Platan byrjar á laginu Tender sem er í raun svakalegt byrjunarlag enda 7:40 á lengd og skartar heilum gospelkór í bakröddum.



Næsta smáskífa var Coxon lagið Coffe & TV. Síðasta smáskífan var hið rosalega fallega og persónulega lag No Distance Left To Run þar sem Albarn syngur um sambandsslitin við Elastica söngkonuna Justine Frischmann sem voru þá nýlega afstaðin. Ég þarf samt að viðurkenna að uppáhalds lagið mitt á plötunni er einhverra hluta vegna lagið Battle sem ætti eiginlega að týnast á miðri plötunni en kveikti samt í mér.

No comments: