Monday, November 30, 2009

Plata mánaðarins


Plata desembermánaðar hæfir mánuðinum enda ætlum við að fjalla um jólaplötu. Þetta er þó ekki bara einhver jólaplata heldur ein súrrealískasta plata sem undirrituð hefur heyrt lengi. Plata mánaðarins er nefnilega Christmas In The Heart með sjálfum meistara Bob Dylan.

Einhver myndi kannski halda að einn merkasti tónlistarmaður samtímans myndi gefa út jólaplötu með sínum eigin frumsömdu lögum eða allavega spila þekkt jólalög á sinn einstaka hátt. Við skulum þó ekki gleyma því að hér erum við ekki að fást við neinn venjulegan tónlistarmann heldur Bob Dylan sem hefur alltaf verið algjörlega óútreiknanlegur og er voðalega lítið upptekinn af því að spila rulluna sem aðdáendur hans ætlast oft til að hann geri. Hann gerir bara nákvæmlega það sem honum sýnist, hvort sem almenningi finnst hann gera lítið úr sjálfum sér með því eða ekki. Það merkilega við þessa plötu er nefnilega að hún er svo hefðbundin þegar kemur að lagavali og útsetningum að það gæti allt eins verið einhver has been crooner að baki henni. Þegar Dylan var spurður út í það af hverju hann kaus að flytja lögin á svona hefðbundin hátt þá svaraði hann einfaldlega að þessi lög væru klassísk og það væri engin betri leið til að spila þau. Kannski hitti hann naglann á höfuðið þar.

Umslag plötunnar prýðir mynd af fólki á hestasleða í snjónum og hún hljómar eins og soundtrack við þessa gömlu mynd. Hér eru sleðabjöllur, gamaldags bakraddir og huggulegheit. Það eina sem stingur í stúf og gerir plötuna frábrugðna öðrum huggulegum jólaplötum er auðvitað sandpappírsröddin hans Dylans. Ég verð að segja að það er sérkennilegt að hlusta á Bob Dylan syngja Here comes Santa Claus... here comes Santa Claus... right down Santa Claus lane en samt er það eiginlega dálítið vinalegt líka.

Ágóði Dylans af plötunni rennur til þriggja góðgerðastofnana, Feeding America, World Food Programme Sameinuðu þjóðanna og Crisis. Topp fimm vill því endilega hvetja ykkur til að kaupa eintak! Það er ekkert mál að nálgast plötuna á netinu ef hún fæst ekki í íslenskum plötubúðum.

Við skulum svo hlusta á upphafslag plötunnar, Here Comes Santa Claus (FJARLÆGT).

2 comments:

Zigz said...

HAHAHAHA sorp.
Tilhvers að gera svona plötu og bæta engu við hana nema raddleysi?
Next stop: Old Folks Home

Kristín Gróa said...

Þú ert svo harður! Uss ég ætla bara að halda mig við að finnast þetta huggulegt ;)