
Ellefta Airwaves hátíðin er komin og farin og mér finnst við hæfi að renna örsnöggt yfir mína reynslu af hátíð þessa árs.
Hátíðin byrjaði rólega hjá mér á miðvikudagskvöldið þar sem ég sá aðeins eina hljómsveit. Það var Skagasveitin 
Cosmic Call sem spilaði fyrir gjörsamlega pökkuðum sal á Grand Rokk. Þau stóðu sig bara mjög vel, þetta er svo sem enn á því stigi að vera efnilegt en lofar mjög góðu.
Á fimmtudagskvöldið kom ég inn í mitt sett hjá 
Stórsveit Samúels J. Samúelssonar á NASA og það var auðvitað bara alveg óstjórnlega skemmtilegt. Ég sá þá síðast á Rósenberg en þeir áttu alveg jafn auðvelt með að fylla NASA af stuði. Næst lét ég draga mig hálf áhugalausa í Iðnó að sjá 
Dísu sem kom mér svo bara virkilega ánægjulega á óvart. Hún er að gera flotta hluti og var í allt öðrum gír en þegar ég sá hana síðast. Þegar við komum út af Iðnó og litum yfir götuna á Fríkirkjuna var nokkuð ljóst að það var ekki séns að komast þangað inn að sjá 
Hjaltalín svo við löbbuðum yfir í Hafnarhúsið þar sem 
When Saints Go Machine voru að byrja. Já þeir voru nú bara leiðinlegir svo við vorum fljótar að skipta aftur yfir í NASA þar sem kanadíski Berlínarbúinn 
Alaska In Winter var nýbyrjaður. Hann náði alveg að halda uppi stemningu einn á sviðinu og ég skemmti mér virkilega vel á þeim tónleikum.
Föstudagskvöld hófst snemma í Hressó þar sem hin unga og hæfileikaríka 
Songbird var að spila klukkan 7. Ég er reyndar mjög biased en hún var æði og þið ættuð að 
tékka á henni strax núna strax (do it!). Eftir matarhlé var skundað í Hafnarhúsið og eftir að hafa staðið í langri röð sem þó hreyfðist ótrúlega hratt þá komum við inn akkúrat þegar 
Casiokids voru að byrja. Þau kveiktu ekki neitt sérstaklega í okkur þrátt fyrir gríðarlegan hressleika. Mini hæpið 
Micachu & The Shapes voru næst og ég var ekkert blown away. Það kom svo sem ekki mikið á óvart því ég var búin að reyna að gefa þeim séns áður en kveikti aldrei almennilega á perunni. Það var þá bara að drífa sig yfir á Sódómu þar sem 
Reykjavík! voru að stíga á stokk. Þeir eru alltaf jafn hressir en eru þeir farnir að mýkjast eitthvað með árunum? Það var minna öskur og meiri melódía fannst mér en það þarf svo sem ekki að vera slæmt. Næst kom kanadíska sveitin 
Crystal Antlers sem ég er búin að hlusta svolítið á og var því frekar spennt fyrir að sjá. Þau ullu engum vonbrigðum, voru gríðarlega þétt og skemmtileg og ég gekk út með suð í eyrum og slátt í höfði. Við ætluðum svo að freista þess að kíkja á 
UMTBS en nei röðin útilokaði það algjörlega.
Laugardagskvöld byrjaði snemma því ég gat ekki misst af því að sjá Rósu vinkonu mína spila með 
Moses Hightower í Iðnó. Mjög smooth. 
Brasstronaut í Hafnarhúsinu ullu nokkrum vonbrigðum, 
Eivör var öðruvísi en vanalega en kveikti ekki í mér og 
Oh Land var ágæt en eftirminnilegust fyrir glimmerhúsið sem hún var með á hausnum. 
Thecocknbullkid var skemmtileg þrátt fyrir að hafa verið í mest boring outfitti helgarinnar (svört dragt og hvítur bolur... really now?). Óvæntur hápunktur hátíðarinnar voru svo 
Páll Óskar og Hjaltalín sem gjörsamlega áttu salinn. Ég dansaði og öskraði og söng og veifaði höndunum... og það gerðu það allir. Maður í bleikum pallíettujakkafötum getur ekki klikkað. Síðustu tónleikar helgarinnar voru svo 
Kakkmaddafakka á Batteríinu sem voru gríðarlega hressir og héldu uppi mikilli stemningu en voru ekkert endilega að gera neitt sérstaklega spennandi hluti tónlistarlega séð. 
Ef þú nenntir ekki að lesa alla leið hingað (og ég lái þér það ekki) þá var þetta basically svona: í heildina ótrúlega gaman, When Saints Go Machine slakastir en Crystal Antlers og Páll Óskar & Hjaltalín stóðu upp úr. Ég get ekki beðið eftir næstu hátíð!