Friday, September 28, 2007
bojbönd - zvenni
Skemmtilegt og hresst lag... eitt af uppáhaldsbojbandalögunum mínum.
Online Videos by Veoh.com
Ohio Express - Yummy Yummu Yummy
Tyggjóklessupopp... katsí og einfalt.
The Temptations - My Girl
Eflaust eitt af fyrstu bojböndunum, með dansa, samræmdar sviðshreyfingar og allt.
You've Lost That Lovin' Feelin' - The Righteous Brother
Var að pæla í að setja Bros hér en fannst þessir bræður betri...
Traveling Wilburys - Handle With Care
Ókei...þetta er sona meira old bojsband en hei...
Topp 5 boy band lög - Kristín Gróa
Þessir eiga fimmta sætið skilið bara fyrir þennan dans og þessi outfit! Mon dieu! Já og hvernig getur karlmaður sungið svona??!!
4. Take That - Back For Good
Á sínum tíma var þetta alls ekki uppáhalds Take That lagið mitt en eftir að hafa farið yfir diskana mína þá er þetta eina lagið sem ég get hlustað á án þess að fá aulahroll og ég get alveg gúdderað að þetta sé gott popplag. Ég ELSKAÐI Take That þegar ég var 13 ára og eftir á að hyggja var það ekki út af tónlistinni (hehemm skrítið) heldur bara af því mér fannst þeir sætir. Tjah eða sko mér fannst bara Mark Owen sætur og fékk alveg sting í magann þegar ég sá myndir af honum. Ég var alveg heilluð af honum og keypti m.a.s. sólóplötuna hans sem var nú frekar crappy. Babe var einmitt uppáhalds Take That lagið mitt þrátt fyrir að vera óheyrilega væmið og með vondum texta en það skipti ekki máli því hann söng það... ég meina kommon hvaða 13 ára stelpa stenst þetta:
3. The Jackson 5 - I Want You Back
Hversu sætur er Michael Jackson í þessu vídjói? I rest my case...
2. The Temptations - My Girl
Ég fattaði ekki fyrr en í gær að The Temptations væru raun alveg dæmigert boyband. Meðlimir koma og fara, þeir syngja catchy lög, dansa samræmt og eru í samstæðum fötum. Sjáið bara!
1. The Monkees - The Porpoise Song
The Monkees eru nú eiginlega fyrirmynd allra boybanda enda var hljómsveitin sett saman fyrir sjónvarpsþátt og auglýst var eftir tónlistarmönnum í hana. Mér finnst hressu popplögin þeirra mjög skemmtileg en þetta lag er í algjöru uppáhaldi hjá mér. Það er mjög ólíkt því sem maður á að venjast frá þeim enda smá sækódelía í gangi og lítill fugl hvíslaði að mér að hinn merki Jack Nitzsche langtíma samstarfsmaður Neil Young hafi útsett strengina. Mæli með þessu.
Thursday, September 27, 2007
Næsti listi...
Wednesday, September 26, 2007
Babyshambles
Uppáhalds krakkfíkill okkar allra og hljómsveitin hans Babyshambles eru loksins að fara að gefa út sína fyrstu plötu eftir að þeir skrifuðu undir samning við Parlophone útgáfufyrirtækið. Gripurinn nefnist Shotter's Nation og kemur út þann 1. október næstkomandi ásamt DVD diski með live upptökum og viðtölum við hljómsveitina. Ég geri persónulega ekki ráð fyrir að kaupa þessa plötu enda fannst mér síðasta afurð sveitarinnar, Down In Albion, algjör shambles (afskakið punið) þrátt fyrir að hafa innihaldið hið undurfallega Albion. Ég skil reyndar ekki hvernig þeim hefur virkilega tekist að koma saman heilli plötu miðað við allt fjölmiðlafárið og ruglið í kringum Pete Doherty en það er nú allt annað mál. Fyrsta smáskífan af plötunni kom út um daginn og hljómar svo sem bara ágætlega en er þó engin opinberun. Dæmið fyrir ykkur sjálf.
Babyshambles - Delivery
Friday, September 21, 2007
Ammli - zvenni
Online Videos by Veoh.com
...have the Rolling Stones killed...
Unhappy Birthday - Smiths
Fýlupúkinn Morrissey getur ekki einu sinni verið glaður á afmælisdögum.
I've come to wish you an unhappy birthday
I've come to wish you an unhappy birthday
'Cause you're evil
And you lie
And if you should die
I may feel slightly sad
(But I won't cry)...
Are Birthdays Happy? - Jens Lekman
Are birthdays happy?
or are they only countdowns to death?
Heimspekilega-melankólískar pælingar að vanda hjá Lekman
Happy Birthday - Sufjan Stevens
Lágstemmd og innileg afmæliskveðja frá Sufjan...
Birthday - Bítlarnir
Enginn tími fyrir vol og væl... bjartsýnisálfurinn MaCartney kallar í teiti..
Til hamingju með afmælið!
Topp 5 afmælislög - Kristín Gróa
5. The Innocence Mission - Happy Birthday
Ljúfsárt lag sungið af konu með skrítna rödd sem minnir mig dálítið á Stinu Nordenstam. Þetta er afskaplega huggulegt lag sem er gott að spila þegar maður vaknar á afmælisdaginn.
4. Kelis - Young Fresh And New
Það er ágætt að hlusta á þetta ef maður er á einhverjum afmælisbömmer og syngja af fullum krafti "cause I gotta be... young fresh and new!!!". Ég er geðveikt ung, fersk og ný sko.
3. The Features - The Idea Of Growing Old
Þetta er svona "já ég er kannski að eldast en á meðan ég hef þig þá er það eiginlega bara fínt... við getum föndrað með krökkunum og fengið okkur síðdegislúr" lag. Já og alveg rosalega catchy líka sem er ekki verra.
2. Stevie Wonder - Happy Birthday
Æjj þetta er bara eitthvað svo krúttulegt lag sem fær mig til að vera glöð innan í mér og gleðjast yfir því að eiga afmæli.
1. The Beatles - Birthday
Það kemur einfaldlega ekkert annað lag til greina enda hef ég það að venju að spila þetta ítrekað á afmælisdaginn minn. Stuð!
Thursday, September 20, 2007
It's a war!
Kanye...
eða
Fiddy...
Afmælisvikan mikla!
Matrimony með The Avett Brothers er ótrúlega hresst, ofboðslega skemmtilegt, með góðum hint af keim af country og gaurarnir eru bara fyndnir. Ég væri svo til í að skella mér til North Carolina og sjá fótastappið og dillið með eigin augum...ég meina, sjáið bara spilagleðina:
UNICEF
Í gær voru tónleikar á vegum UNICEF á Íslandi og ÍTR. Í morgun fékk ég svo heimsforeldra e-mail frá UNICEF um að Ishmael Beah, fyrrum barnahermaður frá Sierra Leone sé að koma til Íslands og verði með opinn hádegisfund í Iðnó á mánudaginn. Ishamel skrifaði bók og er hægt að lesa brot úr bókinni hér. Frásögnin hans er rosaleg!
Eins og Dwight Schrute myndi segja: "Fact: Unicef er að vinna gott starf."
Um að gera að skoða hvort maður geti ekki styrkt það starf.
Tuesday, September 18, 2007
Til hamingju með afmælið Krissa!
Það fyrra er sungið af France Gall sem var ein af frönsku yé-yé tónlistarmönnunum og naut gríðarlega vinsælda í Frakklandi á sjöunda áratugnum. Lagið Poupée de cire, poupée de son er eftir konung slísísins eða sjálfan Serge Gainsbourg. Þau sigruðu Eurovision keppnina árið 1965 fyrir hönd Lúxemborgar með þessu lagi og ég er ekki frá því að þetta sé með betri júróvisjónlögum sem ég hef heyrt.
Það síðara er lagið 7 heures du matin með annari yé-yé söngkonu sem heitir Jacqueline Taieb. Hún vísar í The Who og Little Richard, minnist á Paul McCartney og Elvis Presley og garage hljómurinn í þessu plús franska röddin gera þetta allt frekar töff.
Monday, September 17, 2007
Næsti listi: Til hamingju við!
Það vill svo ótrúlega skemmtilega til að við frænkurnar sem skrifum á þessa síðu eigum allar þrjár afmæli á innan við viku og nú er sú vika runnin upp! Krissa verður 25 ára á morgun, ég verð 26 ára á föstudaginn og Erla Þóra verður 23ja ára á sunnudaginn. Við ætlum í fyrsta skipti (en vonandi ekki það síðasta) að halda upp á afmælin okkar saman með einu svaka partýi um helgina og til að komast í enn betri stemningu fyrir það ætlum við að telja upp topp 5 afmælispartýlög næsta föstudag. Húrra fyrir okkur!
Það væri bara óskandi að Jack Black kæmi í okkar afmæli...
Friday, September 14, 2007
Topp 5 barnalög - Krissa
Nammigrísinn í mér elskar þetta lag! Hvernig er ekki hægt að elska lag með textum eins og þessum:
"On the good ship lollipop.
Its a sweet trip to a candy shop
Where bon-bons play
On the sunny beach of Peppermint Bay."
Þetta lag minnir mig líka alltaf á bæði mömmu og ömmu því ég man að í fyrsta skipti sem ég heyrði minnst á Shirley Temple var það þegar þær voru að segja mér frá henni þegar ég var lítil. Svo er þetta lag líka á einum af uppáhalds diskunum mínum, nefnilega Childhood Days.
4. Be Our Guest
Vá ég veit ekki hversu oft ég horfði á Beauty and the Beast - held ég hafi kunnað hana utan að. Síðan fór hún hefðbundinn rúnt milli allra 'litlu' frændsystkina minna en þegar ég sá hana aftur fyrir 2 eða 3 árum komst ég að því að ég get ennþá sungið með lögunum - sérstaklega þessu - enda var það í sérstöku uppáhaldi. Það er hresst og skemmtilegt, maður sér alla diskana, kertastjakana og hnífapörin fyrir sér dansandi og ég held að frönsku sletturnar inn á milli hafi veitt mér smávegis útrás fyrir tungumálaáhugann back in '91 :)
3.Supercalifragilisticexpialidocious
Út af Mary Poppins áráttu, Dick Van Dyke aðdáun og einskærum orðanördisma! Held að uppáhalds búturinn minn hljóti að vera:
"When Dukes and maharajas
Pass the time of day with me
I say me special word and then
They ask me out to tea"
Svo er líka karókí í myndinni! Hversu svalt er það? Sérstaklega miðað við að hún er frá 1964!
2. Danny Elfman - What's This
Jack er jafn spenntur fyrir jólunum og 7 ára krakki á Þorláksmessu...ahhh það er svo gaman að gleyma sér og verða endalaust spenntur út af einhverju! Og ef maður heyrir lagið rétt fyrir jól kemst maður þar að auki í mesta jólaskap í heimi!
1. Sofðu unga ástin mín
Mig minnir að ég hafi einhvern tíma lesið í grunnskóla að þetta ætti að vera móðir að syngja fyrir barnið sitt áður en hún bæri það út. Getur vel verið en mér finnst samt ekkert barnalag/vögguvísa fallegra og lang lang lang fallegast er það í flutningi föður míns :)
Barnalög - zvenni
Tengi þetta óneitanlega mikið við æskuna og Nintendótölvuna hans Guðjóns. Tími sakleysis, sveppa og skjaldbaka.
Jordy Lemoine - Alison
Hér kennir Jordy börnunum að það er allt í lagi að eiga ímyndaða vini og vinkonur og ef einhver er með múður þá gefum við þeim bara einn á lúðurinn... hahahaha.
Óli hundaóli - Dr. Gunni og Co.
Abbababb... besta barnaplata sem ég hef heyrt.
Bilbo Baggins - Leonard Nimoy
Máski ekki beint barnalag og þó... allaveganna hresst og skemmtilegt, skærir litir, stór eyru, skrítinn karl, drekar og ævintýri... hvað þarf meira?
Grænmetisvísur - Dýrin í Hálsaskógi
Ýmsir fræðingar segja að bernskan sé aðalmótunartíminn í lífi mannverunnar, veit svo sem ekki mikið um það en hlustaði ansi mikið á þessa plötu sem krakki.
Þeir sem bara borða kjöt
og bjúgu alla daga
þeir feitir verða og flón af því
og fá svo illt í maga.
En gott er að borða gulrótina,
grófa brauðið, steinseljuna,
krækiber og kartöflur
og kálblöð og hrámeti.
Þá fá allir mettan maga,
menn þá verða alla daga
eins og lömbin ung í haga,
laus við slen og leti.
Sá er fá vill fisk og kjöt
hann frændur sína étur
og maginn sýkist molnar tönn
og melt hann ekki getur.
En gott er að borða gulrótina,
grófa brauðið, steinseljuna,
krækiber og kartöflur
og kálblöð og tómata.
Hann verður sæll og viðmótsljúfur
og vinamargur, heilladrjúgur
og fær heilar, hvítar tennur,
heilsu má ei glata.
Topp 5 barnalög - Erla Þóra
1. Erla góða Erla
“Erla, góða Erla, ég á að vagga þér.
Svíf þú inn í svefninn, í söng frá vörum mér.
Kvæðið mitt er kveldljóð, því kveldsett löngu er”.
Verð eiginlega að hafa þetta í efsta sæti. Kannski ekkert endilega “barnalag” per say, en þetta er barnalag fyrir mér. Var svo oft sungið fyrir mig back in the day. Ótrúlega fallegt og ég upplifi enn brjálaða nostalgíu þegar ég heyri það.. meira að segja þegar pabbi er bara að raula það heima í eldhúsi af engu tilefni ;)
2. Vögguvísa (Dvel ég í draumahöll..) – úr Dýrunum í Hálsaskógi
“Dvel ég í draumahöll og dagana lofa.
Litlar mýs um löndin öll, liggja nú og sofa”.
Svoooo flott lag. Fékk endurnýjun lífdaga hvað mig varðar á seinsta ári þar sem þetta var eina íslenska lagið sem “krakkarnir mínir” sem ég var að passa út í London kunnu.
3. Supercalifragilisticexpialidocious – úr Mary Poppins
“Because I was afraid to speak when I was just a lad
My father gave me nose a tweak and told me I was bad
But then one day I learned a word that saved me achin' nose
The biggest word I ever heard and this is how it goes: Oh!
Supercalifragilisticexpialidocious…”
Man hvað ég var ótrúlega stolt þegar ég lærði að segja þetta orð í fyrsta skiptið! Mary Poppins er ein af uppáhalds myndunum mínum og ég varð bara að setja eitt lag úr myndinni hér inn. Lagið háði mikla baráttu við Feed the Birds, sem mér finnst hreinlega æði í dós, en þetta er hressara (enda syngur meistari Dick Van Dyke í því) og þ.a.l. meira barnalag.
4. Everybody wants to be a cat – úr The Aristocats
“I've heard some corny birds who tried to sing,
but a cat's the only cat
who knows how to swing”.
Langt frá því að vera besta Disney teiknimyndin en þetta lag hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Svo miklu að það er á fullt af playlistum hjá mér og ég hlusta alltaf reglulega á það.
5. Söngur dýranna í Týrol
“Jorúlorilo-ihí, jorúlorilo-úhú.
Mjá mjá mjá mjá aha ha”.
Need I say more? Geeeeeggjað lag :)
Wednesday, September 12, 2007
Getraun!
Hljómsveitin Spoon gaf út hina stórgóðu Ga Ga Ga Ga Ga í sumar og þar er að finna hið ofurhressa You Got Yr. Cherry Bomb sem ég get ekki mælt nógu mikið með. Gríðarhresst lag þar á ferð!
Stelpnametalpopppönkbandið The Runaways með þær Joan Jett og Micki Steele innanborðs entust ekki lengi en áttu þó nokkra smelli og þar má helst nefna lagið Cherry Bomb sem er mjög seventies teen angst og þar af leiðandi frekar hressandi líka.
Fyrir utan þá augljósu staðreynd að lögin heita bæði eftir kirsuberjasprengju, hvað tengir þau saman?
Topp 5 lög sem ég myndi covera - Krissa
Ákvörðunin um að setja þetta lag á topp5 litast kannski örlítið af því að ég er búin að hlusta svo óóótrúlega mikið á það síðustu daga en það er líka bara alveg óbjóðslega skemmtilegt og það er pottþétt hægt að gera eitthvað skemmtilegt við það!
Nina Simone – Just in Time
Því þetta er bara svo unaðslega yndislega æðislega frábært lag!
Beirut – After the Curtain
Því það er svo óbjóðslega hresst og skemmtilegt og maður gæti dillað sér og dansað meðan maður spilaði
The The – This is the Day
Ég veit ekki alveg hvað er með allavega harmonikkuna hjá mér, fyrst Wintermitts svo þetta. En ég myndi pottþétt prófa að gera einhverja voða fancy útgáfu af þessu því sú upprunalega er bara svo tacky en samt æðislega skemmtileg :D
Bright Eyes – First Day of My Life
‘Mitt lag‘ :)
„But I’d rather be working for a paycheck
Than waiting to win the lottery
Besides maybe this time is different
I mean I really think you like me”
ooog...
Carol of the Bells
Í tilefni af því að það eru að koma jól :) Mér finnst tomandandy útgáfan reyndar bara nánast fullkomin en ég væri til í að prófa...
Monday, September 10, 2007
Animal Collective
Þá er loksins komið nýtt efni frá furðukrúttunum í Animal Collective. Platan nefnist Strawberry Jam og miðað við það sem ég hef heyrt þá er hér ansi spennandi gripur á ferðinni. Mér finnst þetta í raun nokkur breyting frá síðustu plötu, hinni stórgóðu Feels, því að mínu mati er uppbyggingin nokkuð hefðbundnari en maður á að venjast frá þeim. Ef þetta kæmi frá einhverri annari hljómsveit þá myndi mér finnast þetta mjög óhefðbundin tónlist en ég er greinilega með einhvern dempara þegar kemur að Animal Collective. Fyrsta lag plötunnar er hreint út sagt frábært og ég ætla að deila því með ykkur.
Animal Collective - Peacebone
Animal Collective á Myspace
Friday, September 7, 2007
Topp 5 þrennur - Krissa
But time is up...so here goes:
5. The Shins - Oh, Inverted World
Know Your Onion!
Girl Inform Me
New Slang
Þessi þrenna byrjar á fyrsta laginu sem ég heyrði með Shins...það er fullkomið! Hin tvö lögin eru einnig fullkomin! Þau passa líka einhvern veginn óendanlega vel saman, eru öll gullfalleg, með frábærum textum og í algjöru uppáhaldi hjá mér!
Justin Timberlake - Futuresex/Lovesounds
My Love
Lovestoned/I Think She Knows
What Goes Around.../...Comes Around
Er Justin ekki nýji Michael Jackson? Dansinn, hái söngurinn og allar græjur? Vignir setti Michael Jackson í tilkynninguna þannig að það var ekki hægt að nota þá þrennu. Mér finnst enn betra að setja þrennu með Justin!!! jáff!
Hot Chip - The Warning
Boys From School
Colours
Over and Over
Er þetta ekki bara 2006 í hnotskurn? Dillirassar á Freyjugötunni, dillirassar í London hjá Erlunni, dillirassar á Akureyri...Heilög dillirassaþrenning!
Daft Punk - Discovery
Aerodynamic
Digital Love
Harder, Better, Faster Stronger
Þessi þrenna er fullkomin fullkomin FULLKOMIN fyrir föstudagshressleikann...í bland við smá nostalgíu. Svo skemmir nú ekki fyrir þeim að vera franskir... :)
Radiohead - Kid A
Everything in its Right Place
Kid A
The National Anthem
Þarf eitthvað að segja um þetta? :)
Allt í hressleikanum semsagt.
ps. ef einhver er í brjálæðri ástarsorg er kannski mun betra að skella Sea Change með Beck á og taka (The Golden Age) Paper Tiger, Guess I'm Doing Fine og Lost Cause á repeat - þau eru ROSAleg! ;)
Bestu þrennurnar - Vignir
Á hinni stórgóðu Six Demon Bag eftir brjálæðingana í Man Man er ein skemmtilegasta byrjun á plötu seinni ára. Platan byrjar nefnilega á frábærri þrennu sem hefst með laginu Feathers sem er bara einfalt píanó og karlmannlegur hópsöngur svona eins og gæti komið upp á góðu fylleríi. Svo kemur Engwish Bwudd sem gefur góða hugmynd um geðveikina á plötunni. Þegar Banana Ghost kemur loks er búið að koma manni svo vel í gírinn að áður en maður veit af er hryggurinn manns farinn að bobba upp og niður með melódíkunni.
4. Queens of the Stone Age - Songs For the Dead
Maður er rétt kominn inn í plötuna Songs For the Dead þegar No One Knows skellur á manni. Frábært riff með skemmtilegum útúrsnúningum kemur manni í stuðið þótt maður sé búinn að heyra þetta lag alveg endalaust. Gítarsólóið er líka extra skemmtilegt þegar maður hefur náð að spila það í extreme í Guitar Hero. Keyrslan verður síðan hraðari í First it Giveth og síðan er hækkað um einn gír í viðbót í titillaginu Song for the Dead. Þegar loks kemur break í laginu og maður heyrir Dave Grohl öskra "HEY!" og byrja aftur er þrennan fullkomnuð. Í þessari þrennu má vel sjá hvað lagauppröðun getur verið mikilvæg.
3. Modest Mouse - The Moon & Antarctica
The Moon & Antarctica er einhver langbesta plata seinasta áratugar og er ein af þessum sjaldgæfu perlum þar sem að hvert eitt og einasta lag er gott. Þegar ég var að pæla í þessum lista vissi ég að ég myndi vera með einhverja þrennu úr henni. Ég komst síðan að því að þessi plata inniheldur margar þrennur sem virka vel saman. Hún er í raun í nokkrum hlutum sem eru mismunandi hver öðrum. Það er frekar erfitt að finna hvernig þeir eru mismunandi, það er einhver tilfinning sem er önnur. Þrennan sem ég valdi er byrjunin á plötunni. Fyrst kemur 3rd Planet sem opnar plötuna virkilega vel. Svo er farið yfir í Gravity Rides Everything sem er alveg klassískt Modest Mouse lag. Hápunktinum í þrennunni er síðan náð í Dark Center of the Universe sem endar þennan hluta plötunnar í alveg gríðarlegum hressleika.
2. Tool - Lateralus
Lateralus plata Tool er þeirra besta að mínu mati og hennar besti styrkleiki að mínu mati er hvað hún er sterk heild. Maður setur yfirleitt bara á lag nr. 1 og hlustar á hana alveg til enda. Á henni er líka að finna alveg frábæra þrennu. Þrennan byrjar á stærðfræðilega tilfinningadramanu Parabol / Parabola sem er sjálft í tveimur hlutum en ég tel þetta saman sem eitt lag. Síðan eykst keyrslan í laginu Ticks & Leeches sem fjallar um blóðsugurnar sem Tool menn lentu í í lögfræðivandræðum sínum. Maynard syngur svo rosalega í lok lagsins að hann gat víst ekki sungið almennilega í tvær vikur eftir á. Svo endar þrennan á hápunkti plötunnar, á titillaginu Lateralus sem er meistarastykki í sjálfu sér.
1. Wolf Parade - Apologies to the Queen Mary
Þetta er þrennan sem ég var að hlusta á þegar mér datt í hug að þetta gæti verið skemmtilegur listi. Þessi þrenna byrjar á hressleikanum Shine a Light sem kemur manni virkilega af stað. Þessari keyrslu er síðan haldið áfram í laginu Dear Sons and Daughters of Hungry Ghosts og þegar það lag er búið er hjartað farið að slá hratt og boðefnin fljúga um líkamann þegar ballaðan I'll Believe in Anything byrjar. Þarna er búið að koma manni í algera geðshræringu og maður syngur með og trommar á stýrið og fólkið í bílnum við hliðina á manni hlær að manni. Þótt að þriðja lagið í þrenningunni sé ekki tengt hinum í tempói þá virka lögin á undan sem frábær upphitun fyrir hápunktinn þegar þeramínið kikkar inn í I'll Believe in Anything.
þrennur - zvenni
The Sad Punk
Head On
...af Trompe Le Monde með Pixies
Any Colour You Like
Brain Damage
Eclipse
...af Dark Side of the Moon með Pink Floyd
1921
Amazing Journey
Sparks
...af Tommy með The Who
Mean Mr. Mustard
Polythene Pam
She Came in Through the Bathroom Window
og...
Golden Slumbers
Carry That Weight
The End
af Abbey Road með Bítlunum
Topp 5 þrennur
5. Sufjan Stevens - Decatur,Or,Round Of Applause For Your Stepmother! / Chicago / Casimir Pulaski Day af Illinois (2005)
Það er fyrirsjáanlegt að ég skuli ná að klína Casimir Pulaski Day á lista enda fæ ég alltaf verki þegar ég heyri það. Mig langaði virkilega að standast freistinguna en ég get það bara ekki enda eru þessi þrjú lög í svo miklu uppáhaldi hjá mér að ég hlusta stundum bara á þau þrjú í röð og skipti svo yfir í að hlusta á eitthvað annað. Platan öll er alveg frábær en þegar ég þarf minn skammt af Sufjan þá er skilvirkast að hlusta á þessa þrennu. Gæsahúð!
4. Kate Bush - Running Up That Hill (A Deal With God) / Hounds Of Love / The Big Sky af Hounds Of Love (1985)
Furðufuglinn Kate Bush er ekki allra, svo mikið er víst, en ég fíla að hún hefur alltaf fylgt sinni sérvisku og komist upp með það. Sumir flissa bara þegar maður minnist á hana en ég held að hún sé alltaf að fá meira respect. Það var ekki að ástæðulausu að músíkpressan nánast pissaði á sig þegar hún gaf út Aerial í hitteðfyrra eftir 12 ára þögn. Þessi þrenna er alveg pottþétt og Hounds Of Love er hands down eitt besta lag ever. Þar sem við erum að tala um dramadrottninguna Kate Bush þá kemur auðvitað ekkert annað til greina en að horfa á myndböndin við lögin.
Running Up That Hill (A Deal With God):
Hounds Of Love:
The Big Sky:
3. Stevie Wonder - Superstition / Big Brother / Blame It On The Sun af Talking Book (1972)
Ég er búin að vera að bræða það með mér alla vikuna hvort ég eigi að velja þessa þrennu eða Living For The City / Golden Lady / Higher Ground af Innervisions en ég held ég sé sátt við þetta val. Svona næstum því allavega. Mér finnst þessi þrjú lög bara sýna alla styrkleika Stevie Wonder því þau eru alveg rosalega ólík en samt gætu þau bara verið eftir hann.
2. Bob Dylan - Visions Of Johanna / One Of Us Must Know (Sooner Or Later) / I Want You af Blonde On Blonde (1966)
Það fyrsta er að mínu mati eitt allra besta lag Dylans, svo kemur lagið sem kveikti áhuga minn á Dylan og loks lagið sem ég ofspilaði í eitt ár því það sagði einhvernveginn allt sem segja þurfti. Bætum því við að þetta var fyrsta platan sem ég hlustaði á með kallinum og hann er einn af tveimur uppáhalds tónlistarmönnunum mínum og þá er þetta eiginlega bara komið.
1. Pixies - Gigantic / River Euphrates / Where Is My Mind??? af Surfer Rosa (1988)
Í fyrsta sinn sem ég heyrði um þrennufyrirbærið þá var það í umræðu um þessi lög. Sá sem skrifaði gekk svo langt að kalla þetta hina heilugu þrenningu og ég get eiginlega ekki mótmælt þeirri lýsingu. Þetta er fyrsta Pixies platan sem ég eignaðist og þar sem ég varð heltekin af Pixies eftir það og þau breyttu því til frambúðar hvernig ég hlusta á tónlist þá er þessi þrenning í raun og veru heilög fyrir mér.
Thursday, September 6, 2007
UNKLE
Í framhaldi af færslunni um The Duke Spirit í gær langar mig að minnast á nýja plötu með bresku sveitinni UNKLE sem kom út í júlí. Ég verð að viðurkenna að þessi plata fór nú eiginlega framhjá mér enda hef ég aldrei verið brjálaður aðdáandi. Ég hlustaði eitthvað á plötuna Psyence Fiction sem kom út '98 en ekkert svakalega mikið og var satt að segja hrifnust af samstarfi þeirra og Thom Yorke sem leiddi af sér lagið Rabbit In Your Headlights. Nýja platan, War Stories, virkar á mig sem agressívari en það sem ég hef áður heyrt og einfaldlega dansvænni á köflum. Lögin tvö sem ég set hérna gripu mig strax en í því fyrra fá þeir aðstoð frá fyrrnefndri The Duke Spirit og í því seinna frá groddarokkaranum Josh Homme
UNKLE - May Day (feat. The Duke Spirit)
UNKLE - Restless (feat. Josh Homme)
Flight of the Conchords
Flight of the Conchords samanstendur af félögunum Bret McKenzie og Jemaine Clement sem spila frábær lög með húmorískum texta. Engin tónlistarstefna er þeim ofvaxin og taka þeir allt frá rokki til raps til reggae til 80's synthapopps. Eftir frábæra fyrstu seríu á HBO (og önnur á leiðinni) eru þeir komnir á samning hjá Sub Pop og kemur plata frá þeim í janúar næstkomandi. EP plata kom á dögunum og læt ég fylgja með tvö lög þaðan. If You're Into it er rómantískt lag um vandræðaganginn sem er oft í byrjun sambanda þar sem maður veit ekki alveg hvað hinn aðilinn vill. The Most Beautiful Girl in the Room er ástarsöngur til fallegustu stelpunnar í herberginu og er hér í boði í live útgáfu en drengirnir eru einmitt mjög sterkir á þeim vettvangi og eru hátt á mínum lista yfir bönd sem ég vil sjá live.
Flight of the Conchords - If You're Into it
The Most Beautiful Girl in the Room
Svo fylgja hér nokkur vídjó úr þáttunum:
Lagið um David Bowie (heill þáttur var tileinkaður meistara Bowie)
Rapplagið
She's so hot! BOOM!
og svo drengirnir live:
Business Time
The Humans are Dead
Wednesday, September 5, 2007
The Duke Spirit
Ég hef verið að vinna það þarfa en um leið ótrúlega tímafreka og leiðinlega verk að koma öllum diskunum mínum yfir á tölvutækt form og hef í leiðinni endurnýjað kynni mín við tónlist sem hefur gleymst í gegnum árin. Einhverra hluta vegna dettur sumt bara út af radarnum hjá manni þegar það er ekki við höndina alla daga.
Ein plata sem ég dustaði rykið af er Cuts Across The Land með bresku hljómsveitinni The Duke Spirit. Þessa plötu keypti ég í einhverju bríaríi fyrir tveimur árum síðan án þess að hafa nokkurntíma heyrt í sveitinni og var ansi kát með uppgötvunina. Ef ég ætti að líkja þessu við eitthvað þá koma The Raveonettes og Singapore Sling fyrst upp í hugann nema með aðeins minna feedbacki og sudda. Ég mæli með því að þið tékkið á laginu Love Is An Unfamiliar Name sem er þrusurokkari og var í miklu uppáhaldi hjá mér um tíma. Hljómsveitin er víst að vinna að nýrri plötu en annars hefur lítið heyrst í henni undanfarið þó hún hafi reyndar ljáð annari sveit krafta sína á nýlegri plötu... en meira um það á morgun.
The Duke Spirit - Love Is An Unfamiliar Name
The Duke Spirit - Darling, You're Mean
Tuesday, September 4, 2007
Tónlistargrúskarar athugið...
Við lýsum eftir gestalistamönnum! Þið sjáið kannski að hér til hægri er búið að bæta við svæðinu Næstu listar en pælingin er að ákveða og auglýsa komandi lista nokkuð fyrr en við höfum verið að gera. Ef þið sjáið lista sem ykkur líst vel á þá er um að gera að hafa samband og fá að vera með einn föstudag.
Það sem okkur þætti þó sérstaklega skemmtilegt væri að fá góðar hugmyndir að topp 5 listum. Ef þú ert með frábæra hugmynd að lista þá er um að gera að senda hana á okkur á toppfimmafostudegi(hja)gmail.com og vera svo gestatoppfimmari þegar við tökum listann fyrir!
Eels - Guest list
HEALTH
Frá LA koma HEALTH sem hljóma eins og sýrð blanda af Liars, Kraftwerk, drengjakór og mannætum. Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég hlustaði á þetta er að trommuleikurinn er hreint út sagt brjálæðislegur... tribal, óskiljanlega hraður, dúndurfastur og stanslaus. Trommurnar í Crimewave eru sérstaklega kreisí... þið verðið að tékka á því þó ekki nema bara fyrir það! Glitter Pills er svo nokk áhugavert enda með ansi grípandi húkk. Mér líkar!
HEALTH - Crimewave
HEALTH - Glitter Pills
HEALTH á Myspace