Þó ég sé í Rússlandi akkúrat þessa stundina og geti ekki uploadað neinum lögum þá læt ég ekkert stoppa mig í því að vera með í lista! Ef maður ætlar að forrita við tónlist þá skiptir mestu máli að hún trufli mann ekki en að hún sé samt ánægjuleg. Mér finnst þess vegna hægt að skipta forritunarlögum upp í gróflega fimm flokka:
5. The Beatles - Taxman
Lög sem maður þekkir svo vel að maður þarf ekki beint að hlusta á þau. Ég set hérna Taxman af því það er fyrsta lagið á Revolver og það er mjög auðvelt að hlusta á þá plötu þegar ég er að forrita, einfaldlega af því ég hef hlustað á hana svo ótrúlega oft að ég þarf ekkert að einbeita mér að henni.
4. The Prodigy - Voodoo People
Lög sem eru taktföst og hvetja mann áfram til dáða í forrituninni. Mér hefur alltaf fundist Voodoo People alveg rosalega gott forritunarlag því ég fer alltaf í einhvern megagír þegar ég hlusta á það og forrita alveg eins vindurinn! Ég fer bara ósjálfrátt að vélrita hraðar núna þegar ég skrifa þetta með lagið í bakgrunni.
3. My Bloody Valentine - Blown A Wish
Draumkennd lög með ógreinilegum eða engum texta svo maður þurfi ekkert að vera að hlusta nákvæmlega á tónlistina. Ég set Loveless plötuna alveg rosalega oft á þegar ég er að vinna því hún líður áfram án þess að trufla mig en samt er alveg nóg að gerast þegar ég legg vandlega við hlustir.
2. Bob Dylan - Visions of Johanna
Lög með rosalega mörgum versum og engum kórusi. Þetta lag fellur reyndar undir "lög sem maður þekkir vel" flokkinn og vissulega gætu fleiri lög með Bob Dylan verið í þessu sæti. Ég var að íhuga eitt af uppáhalds Dylan lögunum mínum, Sad Eyed Lady Of The Lowlands en þó það séu rosalega mörg vers í því þá er það svo sjúklega fallegt að ég fer alltaf að hlusta af athygli og það gengur ekki þegar maður er að forrita.
1. Joanna Newsom - Emily
Eitthvað fallegt, huggulegt og ekki of uppáþrengjandi. Þetta lag er fallegt, langt, kóruslaust og afskaplega huggulegt. Ég get eiginlega ekki ímyndað mér neitt betra til að forrita við.
PS: Það er gaman að segja frá því að ef maður er staddur í Rússlandi þá birtist blogger allur á rússnesku svo það reyndi virkilega á sjónminnið þegar ég var að setja þessa færslu inn!
Friday, October 26, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment