Það var ég sem stakk upp á þessum lista í einhverju stundarbrjálæði en svo lenti ég í bölvuðu veseni með hann. Þegar ég heyri "R&B" þá hugsa ég um MTV tónlist þar sem sætar stelpur syngja og hrista á sér rassinn og ljótir gaurar rappa eitthvað rugl á milli. Þegar ég fór að hugsa um listann þá lenti ég hins vegar í miklum vandræðum með að skilgreina R&B því þetta er svo vítt hugtak. Það er í raun hægt að flokka allt frá Ray Charles yfir í R. Kelly sem R&B en ég er að spá í að halda mig við nýlega tónlist.
5. Mary J. Blige - Family Affair
Þetta lag minnir mig alltaf á veturinn sem ég leigði með Berglindi vinkonu í Kópavoginum. Þetta var annað árið mitt í háskólanum (sem gerir þetta veturinn... uhh... 2001/2002) og við gerðum fátt annað en að horfa á sjónvarpið. Þá var þetta lag einmitt gríðarlega vinsælt og var spilað á repeat á PoppTíví og ég varð húkt.
4. Kelis - Milkshake
Kelis er svo töff. Það er í raun sama hvort maður tekur eitthvað gamalt eins og Caught Out There eða eitthvað nýlegt eins og hið frábæra Bossy, hún er alltaf með hlutina á hreinu. Lagið Young Fresh And New er reyndar alltaf í uppáhaldi hjá mér en þar sem ég er nýbúin að setja það á lista og þetta er alveg jafn flott þá fær það sætið í þetta sinn.
3. Erykah Badu - On & On
Mér hefur alltaf fundist Erykah Badu koma frá annari plánetu. Það er sko ekki tilviljun að hún var látin leika vúdúdrottningu í Blues Brothers 2000 oseiseinei. Maður hefur svo sem ekki heyrt mikið frá henni síðustu ár og það síðasta sem ég man um að hafa lesið um hana var að hún væri að hætta með André 3000. Nota bene þá eru nokkur ár síðan og ég man hvað mér fannst skrítið að þau væru fyrrverandi par því ég var alveg sannfærð um að hún væri bara geimvera og full af grænu slími að innan. Lagið er samt flott!
2. Beyoncé ft. Jay-Z - Crazy In Love
Ef einhver er fierce þá er það Beyoncé. Hún er geðveikislega sæt og flott, syngur fáránlega vel og lítur út fyrir að geta kýlt mann kaldan. Það sem meira er að þó hún hristi á sér rassinn eins og hinar stelpurnar þá gerir hún það á þann hátt að það fer ekki framhjá neinum hver er við stjórnina. Mér finnst hún vera einskonar Tina Turner nútímans... a force to be reckoned with. Ég held svei mér þá að þetta lag hafi snúið mér aftur til poppsins, þ.e. að geta viðurkennt að popptónlist er ekki alltaf drasl heldur getur hún stundum verið merkilegri tónlist en margt af indírokkinu sem á vanalega hug minn allan.
1. Amy Winehouse - Back To Black
Ekki veit ég hvernig lestarslysinu sem er Amy Winehouse tókst að gera þessa mögnuðu plötu eða hvernig þessi rödd getur komið úr þessum litla líkama. Það er eins og platan, og þá sérstaklega þetta lag, komi frá löngu liðinni tíð enda hljómurinn einhvernveginn gamall. Það eru ekki allir hrifnir af Mark Ronson en þetta gerði hann þó allavega vel og saman hafa þau náð þessum gamla R&B/soul hljómi. Ég hef örugglega spilað þetta lag oftar en nokkuð annað lag þetta árið.
Friday, October 12, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment