Tuesday, October 21, 2008

gloríur...


Partur af bresku innrásinni í Ameríku var norður írska Belfast bandið Them með Van Morrison á munnhörpu og míkrafón. Einn helsti smellur þeirra var lagið Gloria frá árinu 1964 sem var b hlið Baby, Please Dont Go. Þetta einfalda þriggja gripa lag hefur verið tekið upp af mörgum listamönnum í gegnum tíðina og margprófaðar vísindalegar tilraunir hafa sýnt fram á að ef gítar sé hent niður stigagang spili hann Gloríu á leiðinni niður.


Þó ég fíli Doors hef ég aldrei verið neinn ofuraðdáandi. Þeir eiga þó óneitanlega nokkur svakaleg lög og eflaust hefur það verið mikil upplifun að sjá þá á tónleikum. Sóðalegur og sjarmerandi Morrison miðlandi undarlegri indíánavisku sem blandast saman við einhvers konar klassíska-flamingó-djasssúpu. Gloría Doors er live upptaka og gott dæmi um sækadelikshamanismatransklámsögustíl söngvarans. Sögur segja að Doors hafi hitað nokkru sinnum upp fyrir Them í gamla gamla daga og Morrissynirnir tveir hafi tekið magnaða tuttugu mínútna Gloríu í lok síðustu tónleikanna.


Er soldið heillaður af Horses plötu Patti Smith þessa dagana og Gloría hennar finnst mér afar mögnuð. Smith hoppar auðveldlega á milli hugljúfs og innilegs söngs í byrjun lagsins og suddaskapar í lok þess sem gerir það afar Patti-legt og skemmtilegt í alla staði.

Gloria - Them
Gloria - Doors
Gloria - Patti Smith

No comments: