Tuesday, October 27, 2009

Sarpurinn


Plata vikunnar kemur frá árinu 2003 og heitir The Meadowlands. Þetta er nýjasta plata hljómsveitarinnar The Wrens sem hafa verið starfandi frá árinu 1989 en hafa þó aðeins gefið út þrjár plötur og hafa verið sex ár (and counting) að vinna að nýrri plötu.



The Wrens koma frá New Jersey og hafa haft sama lineup frá upphafi. Á undan The Meadowlands gáfu þeir út plöturnar Silver (1994) og Secaucus (1996) hjá plötuútgáfunni Grass Records. Skömmu eftir útgáfu seinni plötunnar vildi svo illa til að plötuútgáfan skipti um eigenda sem vildi að þeir gerðu útvarpsvænni og seljanlegri tónlist. Þeir neituðu að skrifa undir nýjan og breyttan samning og var fyrir vikið droppað af plötufyrirtækinu (þetta hljómar bara eins og plott í nokkrum kvikmyndum sem ég hef séð).

Án plötusamnings héldu þeir áfram að dútla við að gera tónlist en þurftu að borga reikningana með föstum störfum svo þetta gekk allt saman mjög hægt. Þegar The Meadowlands kom loksins út eftir langa bið þá brá aðdáendum sveitarinnar heldur betur enda hafði hljómurinn breyst allverulega. Þetta var ekki sama sveitin og gaf út plötuna Secaucus sem var full af poppi og sumari og húkkum. Þetta voru vonsviknir, þreyttir menn á fertugsaldri sem voru búnir að gefast upp á því að geta lifað á tónlistinni.

13 grand a year in the meadowlands
Bored and rural-poor, lord, at 35, right?
I'm the best 17 year old ever

(Everyone Chooses Sides)

Málið var hins vegar að þeim tókst að búa til alveg hreint magnaða plötu sem þarfnast reyndar nokkrar hlustunar til að maður grípi hana. Að hlusta á þessa plötu er hálfgerður downer en samt getur maður stundum ekki annað en dillað sér. Ég dansa með kökk í hálsinum við This Boy Is Exhausted og fæ stóran hnút í magann þegar ég hlusta á She Sends Kisses (sem ég mæli eindregið með). Ég bíð spennt eftir næstu plötu, hvenær svo sem þeir drattast til að klára hana.

No comments: