Friday, April 27, 2007

Topp 5 bestu gítarsólóin - Kristín Gróa

Þetta var erfiðasti listinn hingað til, aðallega af því ég er almennt ekkert sérstaklega hrifin af sólóum. Það eru þó til undantekningar og sólóin á mínum lista eru þar frekar út af tilfinningunni á bak við þau heldur en vegna þess að þau séu spiluð af fingrafimum Eddie Van Halen týpum.

1. Neil Young - Cortez The Killer
Gítarleikari: Neil Young

Um leið og við ákváðum lista vikunnar vissi ég að þetta lag yrði í fyrsta sæti (úff veit ekki hversu oft ég hef hlustað á það). Það byrjar á rúmlega þriggja mínútna löngu gítarsólói sem er alveg out of this world. Hann tekur svo annað í sama stíl þegar lagið er rúmlega hálfnað og það þriðja fylgir svo undir lokin. Neil Young er kannski ekki besti gítarleikarinn tæknilega séð en hann bætir það svo margfalt upp með tilfinningu. Ég sver að mig verkjar þegar ég hlusta á þetta.

2. Jimi Hendrix - Voodoo Child (Slight Return)
Gítarleikari: Jimi Hendrix

Já ég veit, ég veit! Það er algjör klisja að setja Hendrix á gítarsóló lista en hvað sem ég reyndi þá gat ég bara ekki horft framhjá þessu lagi. Sólóið sem byrjar lagið er bara engu öðru líkt og það er líka löngu orðið klassískt... það vita allir hvaða lag þetta er og hver spilar um leið og fyrsta nótan hljómar. Hann er heldur ekkert búinn þar því hann hættir eiginlega bara ekkert að sólóast út lagið.

3. The White Stripes - Ball And Biscuit
Gítarleikari: Jack White

Ókei kræst hvað þetta er geðveikislegt sóló. Jack White er náttúrulega engum líkur og ég fæ alveg fiðring í magann af tilhugsuninni um hann og það er ekki síst vegna þess hversu magnaður gítarleikari hann er. Það má nú eiginlega segja að allt lagið sé eitt gítarsóló en hann gefur skyndilega í og tekur alvöru sóló sem endist nánast út lagið. Úff gæsahúð.

4. Cream - Sunshine Of Your Love
Gítarleikari: Eric Clapton

Fyrst Hendrix og nú Clapton, ég er greinilega ekki með frjóasta ímyndunarafl í heimi. Mér finnst bara sólóið í þessu lagi alveg rosa töff eins og lagið allt svo ég stóðst ekki freistinguna. Það var reyndar alveg mjög tæpt hvort þetta lag eða annað lag sem hann spilaði með Bítlunum kæmist á listann... skyldi einhver annar setja það lag á lista? ;)

5. Stephen Malkmus - No More Shoes
Gítarleikari: Stephen Malkmus

Stebbi bróðir benti mér á þetta lag fyrir nokkru síðan einmitt út af gítarsólóinu. Lagið er átta mínútur og þar af er mikill hluti sóló en samt virkar það og fyrir það eitt á það skilið sæti á listanum. Go Malkmus! Já og btw... allar athugasemdir um það að ég ætti að taka titil lagsins til mín eru illa séðar ;)

1 comment:

Vignir Hafsteinsson said...

Góður listi! Ég er í heví Cream fíling hérna