Wednesday, September 30, 2009

Sarpurinn


Viðfangsefni Sarpsins að þessu sinni er tímamótaverk hljómsveitar sem er í miklu uppáhaldi hjá mér, nefnilega hin tvöfalda Tusk með Fleetwood Mac.

Ég ætla mér svo sem ekki að reyna að rekja sögu Fleetwood Mac enda er hún löng og flókin og hálf óskiljanleg. Hins vegar er það staðreynd að ellefta plata sveitarinnar, Rumours, gerði þáverandi meðlimi að súperstjörnum enda er hún enn þann dag í dag tíunda mest selda plata allra tíma. Það var alveg ljóst að það yrði erfitt að fylgja þeirri plötu eftir enda var það raunin að Tusk fékk mjög blendnar viðtökur. Platan var almennt álitin algjört flopp þrátt fyrir að hafa náð platínusölu í Bandaríkjunum sem flestum þætti þokkalegt... en það var bara ekki mikið við velgengni Rumours.

Það er gítarleikarinn Lindsey Buckingham sem á mest í Tusk en hann samdi um helming laganna á plötunni og sá að mestu um pródúseringuna. Við skulum ekki gleyma því að á þessum tímapunkti hékk hljómsveitin rétt saman á límingunum og það er satt að segja auðheyrt á plötunni. Þetta er allt mjög skitsófrenískt, rólegu og fallegu lögin þeirra Stevie Nicks (Sarah) og Christine McVie (Over & Over) er blandað saman við taugaveikluðu og stressuðu lögin hans Buckingham (The Ledge) í engri lógískri röð.

Þetta hljómar allt eins og slæm hugmynd en engu að síður þá þrælvirkar þessi plata og eftir því sem tíminn líður hefur álit fólks á henni aukist. Það var engin leið til að fylgja Rumours eftir og þessi tilraunakennda plata sem upprunalega þótti algjört flipp hefur með árunum fengið uppreisn æru.

Ég verð svo auðvitað að benda á að eitt af alltime uppáhaldslögunum mínum og án efa besta breakup lag allra tíma er að finna á þessi plötu, nefnilega hið gullfallega Storms. Ef þið þekkið það lag ekki þá er skylda að smella á linkinn og hlusta því það er engu líkt.

Ljúkum þessu svo á myndbandi sem ég hef áður póstað á þessa síðu en það er klippa úr heimildamynd um gerð plötunnar og hér er verið að fjalla um lagið hennar Stevie Nicks, Angel.

No comments: