Thursday, October 8, 2009
Sarpurinn
Ég ákvað í skyndi að taka að mér að sjá um Sarp vikunnar sem birtist svona seint vegna veikinda upphaflega Sarppennans. Þó ég hafi tekið þetta að mér með stuttum fyrirvara þá var ég ekki í neinum vafa um hvaða plötu ég ætlaði að fjalla um. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að ég var einmitt að hlusta á gamla plötu í gær sem ég gleymi alltaf og enduruppgötva reglulega.
Ég hef áður minnst á það hér að ég þakka mínum eldri og vitrari bræðrum alfarið fyrir það að ég hætti að hlusta á Rokklingana og fór að hlusta á alvöru tónlist. Þegar ég var bara tólf ára höfðu þeir þegar ausið yfir mig helling af tónlist og einn afmælisdaginn fékk ég að gjöf plötuna Mama Said með retrórokkaranum Lenny Kravitz.
Mhmm ég sagði Lenny Kravitz. Í dag þykir hann ekkert sérstaklega svalur enda orðinn soft með árunum en ég get sagt ykkur það að þegar ég fékk Mama Said plötuna fyrst í hendur og sá þennan svarta, dreadlokkaða gaur klæddan í níðþröng skrítin föt þá fannst mér hann svalastur í heimi. Það sem meira var þá fannst mér ég vera ótrúlega svöl og fullorðins að hlusta á þessa tónlist og virkilega fíla hana.
Mama Said kom út árið 1991 þegar hjónaband Kravitz og Cosby Show leikkonunnar Lisu Bonet var að leysast upp. Að sjálfsögðu litast platan mjög af þessu enda fjalla flest lögin um ástarsorg og samband sem er að liðast í sundur. Skýrasta dæmið um það er lagið It Ain't Over'til It's Over sem er enn þann dag í dag það lag Kravitz sem hefur náð bestum árangri á bandaríska vinsældalistanum. Ballaðan Stand By Woman er annað lag sem vísar beint til erfiðleikana í sambandi Kravitz og Bonet.
Þetta er nú samt ekki tómt búhú og væmni því fyrsta smáskífa plötunnar Always On The Run er rokkari sem Kravitz samdi með sjálfum Slash (sem spilar einmitt á gítar í laginu). Uppáhalds lagið mitt á pötunni er svo einhverra hluta vegna upphafslagið Fields Of Joy sem inniheldur einmitt Slash gítarsóló.
Eftir öll þessi ár þá get ég eiginlega ekki dæmt um það hvort þessi plata er í alvörunni góð eða hvort ég er enn að hlusta á hana með tólf ára eyrunum mínum þar sem Lenny Kravitz er hættulegur rokkguð en það kannski skiptir ekki máli á meðan ég nýt þess að hlusta á hana.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Hæ takk fyrir pistilinn og að minna mig á þessa plötu - mér finnst hún líka skrambi góð .
Post a Comment