Thursday, March 4, 2010

Sarpurinn


Í Sarpi vikunnar ætla ég að fjalla um plötu sem fékk engan veginn ofsafengnar viðtökur þegar hún kom út en allavega tveir toppfimmarar hafa miklar mætur á. Hún er minímalísk en samt ó svo töff og sexí. Ég er að tala um þriðju breiðskífu bandarísku hljómsveitarinnar The Breeders sem ber nafnið Title TK og kom út árið 2002.

The Breeders var upphaflega stofnuð árið 1988 af Pixies bassagellunni Kim Deal og annari af þáverandi aðalsprautum hljómsveitarinnar Throwing Muses, Tanya Donelly. Það hefur þó verið skipt svo ört um liðsmenn að Kim Deal er sú eina sem hefur verið með frá upphafi og systir hennar Kelley sem er hér í stóru hlutverki hefur ýmist verið með eða ekki. Þetta er allt voðalega frjálslegt.

Þegar þessi plata kom út árið 2002 voru liðin heil níu ár frá útgáfu næstu plötu á undan. Ef einhver bjóst við framhaldi af útvarpsvæna hittaranum Last Splash þá hefur viðkomandi væntanlega brugðið við að heyra Title TK í fyrsta sinn. Ef það er einhverntíma tilefni til að kalla plötu grower þá er það hér því hún greip mig allavega alls ekki við fyrstu hlustun. Platan er sem sagt mjög hrá og allar útsetningar minímalískar. Það er enginn hljóðveggur á þessari plötu, svo mikið er víst! Ofurpródúserinn Steve Albini sér til þess að þetta sé alveg nægilega losaralegt án þess að detta í sundur og sándið er rosalega crisp og flott. Þetta er að mínu mati alveg gríðarlega vanmetin plata.



The Breeders - Off You
The Breeders - Sinister Foxx

No comments: