Tuesday, November 10, 2009

Sarpurinn


Í Sarpi vikunnar ætla ég að fjalla um hina frábæru plötu Being There með hljómsveitinni Wilco. Ég gæti í raun tekið fyrir margar Wilco plötur hérna en einhvernveginn finnst mér rökrétt að byrja á þessari breakthrough plötu sveitarinnar. Hún kom út árið 1996 og inniheldur hvorki meira né minna en 19 lög enda tvöföld plata.

Hér eru Wilco rétt aðeins farnir að stefna í þá tilraunakenndu átt sem náði hápunkti á Yankee Hotel Foxtrot (Hotel Arizona) og A Ghost Is Born en þó eru hér í heildina mun hefðbundnari lagasmíðar (Say You Miss Me) og inn á milli má enn heyra kántrítónana sem Jeff Tweedy flutti með sér frá sveitinni Uncle Tupelo (Someday Soon).

Jay Bennett er hér nýgenginn til liðs við Wilco og setur sitt mark á plötuna. Hann átti síðan eftir að vera rekinn þegar upptökunum á Yankee Hotel Foxtrot var lokið eftir ágreining við Tweedy. Það er skemmtileg tilviljun að Being There byrjar einmitt á laginu Misunderstood þar sem Tweedy vísar í upplausn Uncle Tupelo en hann og Jay Farrar skildu vægast sagt illa þegar sú sveit hætti.

Take the guitar player for a ride
Cause he ain't never been satisfied
He thinks he owes some kind of debt
Be years before he gets over it


Eins og ég minntist á telur platan 19 lög og þar af birtist eitt hressasta breakup lag sem ég man eftir tvisvar í sitthvorri útsetningunni, fyrst sem Outtasite (Outta Mind) og svo sem Outta Mind (Outta Sight). Textarnir eru almennt frekar mikill downer enda Tweedy að ganga í gegnum nokkra erfiðleika í einkalífinu á þessum tíma auk þess að vera að sætta sig við að vera orðinn fullorðinn og allar skyldurnar sem því fylgir. Þrátt fyrir bömmerinn sem er almennt í gangi hérna þá er þetta ein af fáum tvöföldu plötum sem ég hlusta á í einum rykk. Hún er líka áhugaverður kafli í sögu þessarar stórmerkilegu hljómsveitar sem hefur gengið í gegnum miklar mannabreytingar og stílbreytingar á 15 ára starfstímabili sínu.

1 comment:

Georg Atli said...

Wilco.... classic!