Tuesday, October 23, 2007

Iceland Airwaves - fimmtudagur - Vignir

Ég ætlaði að skrifa inn review samdægurs á meðan á hátíðinni stóð en það klikkaði hjá mér. En þar sem að ég vil eiga þetta þá ákvað ég að skrifa þetta núna bara.

Ég missti af miðvikudagskvöldinu þar sem að ég var að koma heim frá útlöndum það kvöld. Fimmtudagskvöldið hjá mér og mínum byrjaði á NASA þar sem að við sáum Slow Club hefja fjörið. Þau voru voðalega krúttleg, bresk og kurteis. Mjög einfalt og flott hjá þeim, en ég er ekki viss um að ég hefði getað setið lengi undir þessu hjá þeim. Ég styð þó alveg hljómsveitir sem koma með stóla á sviðið í þeim eina tilgangi að tromma á hann.
Næst stigu á svið drengirnir í Best Fwends. Það fannst mér leiðinlegt og virðist ég hafa verið einn í heiminum um það. Allir voru voðalega ánægðir með þá og fannst þeir vera hressir. Jú, hressir voru þeir en mér fannst þeir bara kjánalegir, lélegir og vandræðalegir. Ef að maður myndi fara á tónleika og það væri fólk að sprikla uppi á sviði og maður myndi allt í einu missa heyrnina, þá myndi maður sjá hvað liðið á sviðinu væri rosalega kjánalegt. Maður væri reyndar meira hissa á því að hafa misst heyrnina en það er annað mál. Pointið mitt er að það er rosalega fín lína milli þess að vera töffari uppi á sviði og vera bara einfaldlega kjáni á sviði. Mér fannst þeir bara vera kjánar.
Unglingarnir í Retro Stefson tróðu sér eins og þau gátu á sviðið á NASA og byrjuðu með suðrænni sveiflu. Mér fannst þau alveg vera mjög skemmtileg og skemmtileg sveifla í þeim en ég veit ekki hvort að það hafi eitthvað verið tengt því hvað þau eru ung og krúttleg. Þau náðu samt skemmtilegri tengingu og voru þetta virkilega persónulegir tónleikar. ,,Allir að dansa, líka þú Ásdís!" er með því skemmtilegra sem ég heyrði hljómsveit segja við áhorfendur um helgina. Annars mæli ég með því að bassaleikarinn sé ekki falinn á bak við hljómborðið því það er rosalega gaman að horfa á hann skemmta sér við að spila.
Ég var nokkuð spenntur fyrir The Teenagers og var aðeins búinn að heyra nokkur lög með þeim. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með þá á sviði. Lögin runnu mikið saman í eitt, sama sándið aftur og aftur og sviðsframkoman var alveg steingeld. Þeir náðu ekki einu sinni að gera neitt skemmtilegt við stórfína lagið sitt Homecoming.
Ég flúði frá táningunum og við fórum og hittum restina af krúinu í Listasafninu þar sem ég náði rétt að sjá smá af henni Lay Low að krúttast uppi á sviði. Þetta virtist vera mjög fínt hjá henni en ég fylgdist ekki nógu vel með til að geta sagt eitthvað af viti. Við höfðum mætt til að sjá Grizzly Bears spila sem ég hef ekkert hlustað á en hafði heyrt góða hluti af. Þeir lulluðu inn á sviðið og hófu að spila. Þetta var ekki alveg það sem ég hafði búist við, mjög lágstemmd og róleg tónlist með hægri uppbyggingu sem minnti mig á hljómsveitir eins og Explosions in the Sky. Ég verð nú að viðurkenna að mér fannst uppbyggingin yfirleitt vera of hæg. Ég hefði örruglega haft virkilega gaman af þessum tónleikum ef ég hefði verið betur undirbúinn undir þetta og svo hefði verið skemmtilegt að sjá svona tónleika á skemmtilegri stað eins og t.d. Óperunni.
Ég og mín flúðum af þessu og fórum á Nasa til að sjá Late of the Pier sem mér var bent á fyrr um kvöldið (takk fyrir það, Hjalti!). Þeir tóku NASA alveg í gegn með virkilega hressu syntharokki og frábærri sviðsframkomu. Án alls vafa, ein af uppgötvunum hátíðarinnar.

Skemmtilegt kvöld í alla staði. Var reyndar slakasta kvöldið en það er bara af því að hin voru svo rosalega rosaleg :)

No comments: