Friday, October 19, 2007

Airwaves - fimmtudagskvöld


Ég brunaði niður í bæ eftir vinnu í gær til að ná The Duke Spirit sem voru að spila off-venue í Popp. Þau voru í svaka stuði og þrusuðu út einum fimm lögum ef ég man rétt. Hápunkturinn var auðvitað að heyra uppáhaldið mitt, Love Is An Unfamiliar Name, en nýju lögin voru líka mjög góð. Gott rokk hér á ferð.



Eftir gott sushistopp lá leið okkar á NASA þar sem við sáum fyrstu hljómsveit kvöldins, hina bresku Slow Club. Fyrsta orðið sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um þau er "spilagleði". Þau höfðu greinilega alveg rosalega gaman af þessu og það smitaðist heldur betur út í salinn. Þetta voru skondinn gaur á gítar og sæt stelpa í kjól að berja á allt frá skeiðum yfir í stóla og það var bara alveg rosalega skemmtilegt að horfa á þau. Ég geri mér enga grein fyrir hvernig þau hljóma á upptöku en live virka þau allavega vel.



Næstir á svið voru gaurarnir með besta hljómsveitarnafn ever... Best Fwends. Þeir voru hressir, það verður ekkert af þeim skafið, en náðu ekki alveg að heilla áhorfendahópinn. Ég hafði nokkuð gaman að þeim og gæti alveg hugsað mér að tékka á plötunni en gelgjuteknóöskrin gengu reyndar misvel ofan í hópinn minn og einn ónefndur maður hristi bara hausinn ;)



Hin ofurhæpuðu Retro Stefson komu næst og voru svo mörg að þau rúmuðust varla á sviðinu. Ég var nokkuð spennt fyrir þeim en varð því miður fyrir talsverðum vonbrigðum. Kannski er það hæpið sem hafði magnað upp eftirvæntingar mínar en ég satt að segja veit ekki hvers vegna allt þetta fjargviðri er út af þeim. Mér finnst pælingarnar skemmtilegar en engan veginn nógu vel útfærðar og mér fannst þetta dálítið renna saman í einn graut. Þau áttu nokkra góða spretti en héldu ekki dampi þrátt fyrir fjöldann og m.a.s. smellurinn Medallion sem mér hefur fundist ágætur týndist hálfpartinn í grautnum. Ég býst þó við að reynsluleysi spili talsvert inni í hérna og hef fulla trú á að þessi sveit muni skila einhverju góðu frá sér í framtíðinni.



Við ákváðum að rölta yfir í Hafnarhúsið og stóðum í heila mínútu í röð sem verður að teljast ásættanlegt. Lay Low byrjaði fljótlega eftir að við gengum inn og er svo sem ekkert mikið um það að segja. Mér finnst hún fín en einhverra hluta vegna tengi ég ekki alveg við tónlistina. Það var hins vegar ansi huggulegt að standa og kjafta aftast í salnum á meðan hún spilaði svo ég komst eiginlega að þeirri niðurstöðu að þetta væri fullkomin bakgrunnstónlist. Ég veit það hljómar verr en ég meina það en mér finnst tónlistin hennar töff án þess að ég nenni að hlusta hlusta á hana. Meikar það sens?



Grizzly Bear stigu síðastir á svið í Hafnarhúsinu þetta kvöld og var ég greinilega ekki ein um að vera spennt fyrir þeim því það var orðið margt um manninn þegar þeir byrjuðu. Aftur verð ég því miður að segja að ég varð fyrir vonbrigðum en ég held ég skrifi það algjörlega á að ég var persónulega ekki stemmd fyrir þessi öfga rólegheit. Mér fannst lögin lengri og þunglamalegri en á plötunni ef frá er talið hið gullfallega Knife sem stóð upp úr. Þegar Krissa og Viggi voru bæði stungin af og ég næstum sofnuð standandi þá ákváðum við Svenni að hypja okkur bara heim þó settið væri ekki búið.



Við löbbuðum framhjá Lídó á leiðinni heim en þó það væri engin röð og The Duke Spirit væru við það að stíga á svið þá meikuðum við ekki meira heldur skakklöppuðumst heim í rúm. Það voru örugglega mistök en þar sem við sáum þau fyrr um daginn þá er ég ekkert of svekkt. Í kvöld á mér örugglega ekkert eftir að leiðast. Loney, Dear, múm og of Montreal í Hafnarhúsinu, Buck 65 og Jagúar í Iðnó, Heavy Trash í Lídó, Reykjavík!, Deerhoof og Jakobínarína á Gauknum... og svo auðvitað GusGus á NASA. Sá á kvölina sem á völina.

No comments: