Thursday, October 18, 2007

Airwaves - miðvikudagskvöld


Ég ætlaði nú varla að nenna að drattast út úr húsi í gærkvöldi til að fara á tónleika en ég lét mig nú samt hafa það að labba niður í bæ í kuldanum. Það var í raun ekkert sérstakt sem heillaði á dagskrá Airwaves þetta kvöld en ég var einna helst spennt fyrir að sjá ungpíurnar í Smoosh svo ég skundaði niður á Austurvöll og beint inn á NASA um hálftíuleytið. Mér létti óneitanlega þegar ég sá að það var engin röð og svo voru fyrstu menn sem ég sá þarna inni góðvinir mínir þeir Davíð og Heiðar svo kvöldið byrjaði allavega vel.

Smoosh stigu á svið fljótlega eftir að ég kom inn og byrjuðu af krafti fyrir framan fullan sal af fólki. Þær eru auðvitað alveg ótrúlega góðar miðað við aldur og ég skil ekki hvernig litla systirin getur haldið á bassanum, hvað þá spilað á hann. Ég veit svo sem ekki hvort ég myndi hlaupa út og kaupa diskinn en þær eru mjög hæfileikaríkar og gætu orðið að einhverju miklu stærra með tímanum. Hvaða rugl er það líka að túra með Deerhoof og Bloc Party þegar maður er 15?



Næstir á svið voru Soundspell og ég ákvað að gefa þeim séns þrátt fyrir að lýsingin á sveitinni í Airwaves bæklingnum innihéldi orðin "Fans of Brit-pop in the style of Keane should look out". Eftir að hafa lesið þetta var ég eiginlega búin að ákveða að þeir væru leiðinlegir en ég reyndi að hrista það af mér og hlusta með opnum hug. Ókei þeir eru bara 17-18 ára og söngvarinn var nú þokkalega góður þrátt fyrir of mikið handapat. Hinsvegar held ég að þetta hafi verið lengsti hálftími lífs míns, fullur af innantómri dramatík og klisjukenndum textum. Ef ég ætti að súmmera bandið upp væri það einhverskonar blanda af Keane, Muse, Leaves og Coldplay. Kannski eru þeir að gera þetta vel en ég er bara með ofnæmi fyrir svona tónlist svo ég er ekki dómbær. Hljómborðsleikarinn fær líka megamínus fyrir að vera með eitthvað frekjuattítjúd við hljóðmanninn... dúddi kurteisi kostar ekkert og attitjúd frá 17 ára strák er bara kjánalegt.

Eftir þetta allt saman meikaði ég ekki meira enda Lights On The Highway næstir á svið og ég hef séð þá nógu oft á einni ævi held ég.

Hvað á svo að sjá í kvöld? Það sem kemur einna helst til greina eru Jenny Wilson, Lay Low og Grizzly Bear í Listasafninu, My Summer As A Salvation Soldier og Ólöf Arnalds í Iðnó, Sprengjuhöllin og The Duke Spirit í Lídó, Best Fwends, Retro Stefson og The Teenagers á NASA eða Kimono, Skátar og Khonnor á Organ. Það er úr nógu að velja ójá.

Smoosh
Soundspell á MySpace

1 comment:

Krissa said...

æjj hvað ég er sátt við að hafa bara misst af gærkvöldinu núna hehe

Tonight however is a different story! ;)