Friday, November 23, 2007

Topp 7 dagalög - Kristín Gróa

Sunnudagur: Finley Quaye - Sunday Shining

Ég fór í marga hringi með sunnudagslagið áður en ég endaði á þessu. Þetta er hið fullkomna sólskinsdagsroadtriplag og minnir mig alltaf á roadtripið sem við vinirnir fórum norður í Ásbyrgi í denn. Ég man mjög sterkt eftir því að þetta lag var í spilaranum þegar við lögðum bílnum við Jökulsárgljúfur og það var einmitt glampandi sólskin og blíða.

Mánudagur: Fats Domino - Blue Monday

Fats þylur upp þrautir vikunnar. Á mánudögum er þrældómur, þriðjudagar eru erfiðir því þreytan er sest í, á miðvikudögum er hann svo þreyttur að hann meikar ekki að hitta kærustuna, á fimmtudegi þarf að harka af sér og vinna, á föstudegi fær hann útborgað, á laugardegi er hann hamingjusamur og úthvíldur með fulla pyngju og kærustuna í fanginu og á sunnudegi líður honum ekki vel en það var þess virði því það var svo gaman á laugardegi. Hljómar kunnuglega... hefur ekkert breyst í öll þessi ár?

Þriðjudagur: Lynyrd Skynyrd - Tuesday's Gone


Þetta er eitt af uppáhaldslögunum mínum sem ég heyrði fyrst í uppáhalds kvikmyndinni minni svo það er sjálfkjörið á listann.

Miðvikudagur: The Kamikaze Hearts - Ash Wednesday

Ég veit nú ekki mikið um þessa hljómsveit en ég veit að þetta lag er algjör killer. Ég veit ekkert hvernig stendur á því að ég á það en ég rak augun í það þegar ég fór að leita að miðvikudagslögum og það var nú meira lánið. Mæli með þessu.

Fimmtudagur: Asobi Seksu - Thursday

Þetta er ein af þessum hljómsveitum sem ég hef oft heyrt nefnda og hafði reyndar aðeins heyrt í en ekki hlustað markvisst á. Í örvæntingarfullri leit minni að fimmtudagslagi þá sló ég "thursday" inn á hypemachine og þetta dúkkaði upp. Það vildi síðan bara svo heppilega til að þetta er alveg frábært lag og ég hef verið að hlusta á það á repeat alla vikuna. Gaman að uppgötva nýtt!

Föstudagur: Jens Lekman - Friday Night At The Drive-In Bingo

Nú er ég mikill aðdáandi Jens Lekman en held svei mér þá að þetta lag af nýju plötunni sé meðal hans bestu. Ég heyrði það fyrst á tónleikunum hans á Reyfi í haust og það greip mig strax. Það er svo hresst og skemmtilegt :)

Laugardagur: Nick Drake - Saturday Sun

Þetta þykir mér eitt af fallegustu lögum Nick Drake og er alveg tilvalið til að hlusta á á letilegum laugardegi þegar maður nennir ekki út heldur kúrir sig upp í sófa með bók. Ahhhhhh....

No comments: