Friday, January 18, 2008

Topp 5 tiltektarlög - Vignir

Þegar ég tek til þá þarf ég að hafa mikið stuð í kringum mig. Þessvegna set ég oft mjög hressa tónlist á enda á ekki að vera leiðinlegt að taka til að óþörfu. Þótt að listinn sýni það ekki þá lendir oft metall í hlustun hjá mér. Það er t.d. mjög gott að taka til undir ...and Justice For All eða hressum slögurum með Opeth.

5. Feist - I Feel it All
Það er frekar kjánaleg ástæða fyrir því að ég er með þetta lag á listanum en ég er búinn að vera með þetta lag á heilanum alla vikuna og ég er einnig búinn að vera með þennan lista á öðru heilahvelinu alla viku. Þetta olli samruglingu sem olli því að ég er búinn að vera að raula: "I Clean It All, I Clean It All" alla viku.

4. Maximo Park - Postcard of a Painting
Árið 2004 kom alveg fullt af hressleikarokki frá Bretlandseyjum: Maximo Park, Futureheads, Franz Ferdinand og Dogs Die in Hot Cars svo dæmi séu nefnd. Þessar hljómsveitir gerðu rosalega góð tiltektarlög og ef maður hendir saman playlista með þeim verður tiltektin barasta mjög hress skemmtileg.

3. Man Man - Banana Ghost
Eftir að ég flutti inn til minnar heitelskuðu þá verður tiltektin oft að samvinnuverkefni. Þar af leiðandi verður tónlistin sem spilar undir að falla að eyrum allra íbúa. Þetta hefur sína kosti og galla. Ekki má lengur setja Lamb of God en hinsvegar koma upp nýjar hugmyndir sem manni hefði kannski ekki dottið í hug. Auk þess þá er líka til fullt af góðri tiltektartónlist sem að báðir aðilar hafa gaman af og bera jafnvel sameiginlegar tilfinningar til. Dæmi um þetta er hljómsveitin Man Man sem við uppgötvuðum svo skemmtilega saman í úgglandaferð.

2. Tina Turner - I Can't Stand the Rain
Þegar pabbi fór að taka til þá fór alltaf Live platan með Tinu Turner á fóninn. Þessi plata og Brothers in Arms plata Dire Straits voru uppáhalds plötur pabba á þessum tíma. Ein af mín elstu minningum er einhvern laugardaginn þegar verið var að taka til og pabba vantaði diskinn. Hann átti þó þessa tónleika á VHS spólu en hann var þá búinn að tengja hljóðið við stofugræjurnar. Svo stóð hann stoltur fyrir framan slökkt sjónvarpið og montaði sig yfir því að geta hlustað á hljóðið á spólunni án þess að þurfa að kveikja á sjónvarpinu. Ég held að þetta sé það tæknilegasta sem ég hef séð hann gera.

1. At the Drive-In - Arcarsenal
Relationship of Command er all-time uppáhalds tiltektarplatan mín og fær hún lang oftast að fara á fóninn þegar taka á til. Það er svo mikill kraftur í þessari plötu að hann smitar alveg rosalega og maður vaskar upp eins og enginn sé morgundagurinn. Svo getur maður líka öskrað með óskiljanlegum textunum og fengið fínustu útrás!

No comments: