Friday, January 4, 2008

Topp 5 plötur ársins 2007 - Kristín Gróa

Ég talaði um það fyrir viku síðan að það væri auðveldara að velja plötur ársins heldur en lög en engu að síður vafðist þetta þónokkuð fyrir mér...



5. M.I.A. - Kala

Ég veit ekki af hverju þessi plata höfðar svona mikið meira til mín heldur en Arular en hún gerir það nú samt. Það eru ansi skiptar skoðanir um þessa plötu en mér finnst hún alveg rosalega skemmtileg.

Hápunktar:

Jimmy
Mango Pickle Down River
Paper Planes



4. The National - Boxer

Þessi rödd, þessi rödd, þessi rödd! Ég gæti eytt ævinni í að hlusta á kæruleysislegan sönginn. Ég get ekki sagt að þetta sé brjálæðisleg stefnubreyting hjá þeim frá plötunni Alligator en það er þó eitthvað breytt sem ég get ekki sett fingurinn á. Textarnir eru auðvitað aðeins mildari á þessari plötu og trommurnar mun æstari en plöturnar eiga það sameiginlegt að læðast aftan að manni. Þetta virkar allt voða rólegt og "eins" við fyrstu hlustun en svo skyndilega brjótast melódíurnar fram og textarnir fara að snerta mann. Plata sem á eftir að fara reglulega á fóninn um ókomna tíð.

Hápunktar:

Fake Empire
Slow Show
Start A War



3. Jens Lekman - Night Falls Over Kortedala

Það er erfitt að lýsa textunum hans Jens en honum tekst á einhvern undraverðan hátt að gera lítið úr sjálfum sér og gera grín að því um leið án þess að detta í þá gryfju að vera of "greyið ég" eða rembingsfyndinn. Þegar ég hlusta á lögin hans langar mig mest til að knúsa hann því hann virkar eins og geðveikt góður strákur sem er bara alltaf að lenda í einhverju rugli og er sífellt angistarfullur yfir því. Svo er hann kannski bara asni en ég held samt ekki... og þess vegna vil ég heyra meira.

Hápunktar:

The Opposite Of Hallelujah
A Postcard To Nina
Friday Night At The Drive-In Bingo



1. - 2. Okkervil River - The Stage Names

Ég hélt að það væri ekki séns að gera betur en Black Sheep Boy en svei mér þá ég held að Will Sheff og félögum hafi næstum tekist það enda ekki eitt veikt lag á þessari plötu. Textarnir eru auðvitað alveg sér kapítuli út af fyrir sig, alveg ótrúlega vel gerðir og sérstakir á allan hátt. Ég gat hreinlega ekki gert upp á milli þessarar plötu og þeirrar sem kemur næst svo þær fá að sitja á toppnum saman.

Hápunktar:

Our Live Is Not A Movie Or Maybe
Plus Ones
John Allyn Smith Sails (ég meina hversu snyrtilega koma þeir Sloop John B stefinu inn? Snilldarlega gert!)



1. - 2. of Montreal - Hissing Fauna, Are You The Destroyer?

Við fyrstu hlustun fannst mér þetta skelfilega poppað og over the top en svo stóð ég mig að því að hlusta stanslaust á þessa plötu og fá ekki nóg. Þegar ég fór svo að pæla í textunum og kynna mér baksöguna þá varð mér skyndilega ljóst hvað þetta er mikið meistaraverk. Kevin Barnes fór í glamrokk gallann, reif úr sér hjartað, stráði yfir það glimmeri og dansaði um með það í hendinni . Hressasta plata sem gerð hefur verið um einmanaleika, sársauka og sjálfsvígshugsanir.

Gronlandic Edit
A Sentence Of Sorts In Kongsvinger
The Past Is A Grotesque Animal

Ég verð eiginlega bara að fá að nefna næstu plötur inn á lista. Í engri sérstakri röð:

The Besnard Lakes - The Besnard Lakes Are The Dark Horse, Neil Young - Chrome Dreams II, Sunset Rubdown - Random Spirit Lover, Animal Collective - Strawberry Jam, Spoon - Ga Ga Ga Ga Ga

1 comment:

Vignir Hafsteinsson said...

Kevin Barnes fór í glamrokk gallann, reif úr sér hjartað, stráði yfir það glimmeri og dansaði um með það í hendinni.
Vel sagt :)

Frábær listi