Friday, February 20, 2009

Topp 5 íslenskt - Halldór

Jæja, hér kemur fyrsti topp 5 listinn minn á þessa síðu. Setti hann saman með stuttum fyrirvara en er samt frekar sáttur við hann. Youtube er vinur minn og nota ég þann vettvang til að setja inn lögin. Hvet þó alla til að nálgast aðrar útgáfur af lögunum.

Hraun – Thunderball

Ég hef verið mikill aðdáandi hljómsveitarinnar Hrauns frá því ég ráfaði óvart inn á jólatónleika með þeim í gamla Rósenberg. Þeir hrifu mig strax með mjög góðum lögum og frábærri sviðsframkomu. Stuttu seinna sá ég þá aftur þegar þeir spiluðu í afmæli vinar míns og það var ekki síðri upplifun. Þar tóku þeir meðal annars fáránlega flotta rokkútgáfu af Britney Spears poppslagaranum Toxic, algjör killer. Þetta lag, Thunderball, finnst mér frábært í alla staði hvort sem það er beint af plötunni eða live eins og í þessu tilfelli en þessi útgáfa er tekin úr þætti Loga Bergmann.


Mugison – Mugiboogie

Mugison hefur sinn eigin stíl og sitt eigið sound. Ég fíla flest allt sem hann hefur gert mjög vel og þetta lag, Mugiboogie, er hrikalega þétt. Ekki verra að myndbandið sem ég nota ku vera af Akranesi, þykist vita að það falli í góðan jarðveg hjá einhverjum.


Páll Óskar – Þú komst við hjartað í mér

Get eiginlega ekki sleppt honum Palla þegar ég set saman lista með íslenskum lögum. Maðurinn er frábær tónlistarmaður og í miklu uppáhaldi hjá 3ja ára syni mínum. Hann á meira að segja áritað plaggat af honum sem hangir í herberginu hans og honum finnst fátt skemmtilegra en horfa á dvd diskinn hans og taka nokkur dansspor með Palla. Þetta var valið lag ársins 2008 og finnst mér það vel að þeim titli komið.


Emilíana Torrini – The Boy Who Giggled So Sweet

Röddin í Emilíönu Torrini er á við heila hljómsveit, sýnir sig best í minimalískum lögum þar sem undirspil er ekki ofhlaðið. Einnig eru fáir íslenskir söngvarar sem setja eins mikla tilfinningu í sönginn og hún. The Boy Who Giggled So Sweet af plötunni Merman er gott dæmi um það.


Tom Waits lag listans

Verandi gríðarlega mikill Tom Waits aðdáandi er planið að koma a.m.k. einu Tom Waits lagi inn í hvern einasta lista. Líklega verða þau stundum fleiri og það kæmi mér ekkert á óvart þótt hann fyllti einhvern eða einhverja lista. Yfirleitt verður áskorunin hjá mér líklega sú að takmarka fjölda laga eftir hann en það er ekki tilfellið í þetta skiptið. Samt var það merkilega lítið mál að troða meistaranum inn í topp 5 lista með titilinn íslensk lög. Ég hefði getað farið þá leið að velja cover íslenskra tónlistarmanna á lögum eftir hann og voru þá fyrst á blað Little Trip to Heaven með Mugison og I Hope That I Don‘t Fall in Love With You með Emilíönu Torrini en ég ákvað að fara aðeins langsóttari leið og leyfa þessum listamönnum að komast á listann með sínum eigin lögum.

Árið 1973 kom fyrsta plata Tom Waits út. Það var hin frekar vanmetna Closing Time. Sagan segir að einn sunnudagseftirmiðdag þegar Tom var ennþá í upptökum á plötunni hafi hann viljað klára upptökur á lagi samnefndu plötunni. Hins vegar var bassaleikarinn sem spilaði með honum þá vant við látinn. Upptökustjórinn Jerry Yester sagðist vita af bassaleikara sem hentaði vel í þessu lagi og hringdi þá í bassaleikarann Árna Egilsson sem þá hafði verið að reyna fyrir sér í Bandaríkjunum í einhvern tíma. Árni var þá staddur í grillveislu en samþykkti að kíkja til þeirra þrátt fyrir að vera búinn að fá sér eins og tvo kalda. Þeir tóku lagið upp ásamt trompetleikara en lagið er ósungið. Eitt af þessum viðkvæmu fallegu lögum. Mæli með að allir finni upphaflegu útgáfuna af plötunni en því miður fann ég það ekki á youtube. Hins vegar fann ég útgáfu þar sem einhverjum datt í hug að nota lagið sem undispil fyrir upplestur Allan Ginsberg á ljóði sínu America og ég verð að segja að það var bara ansi góð hugmynd. Þið heyrið lagið þarna undir.

Tom Waits lag listans er: Closing Time (af Closing Time - 1973)


No comments: