Friday, January 29, 2010

Topp 5 plötur áratugarins - Kristín Gróa

Ég get ekki búið til lista yfir fimm bestu plötur síðasta áratugar því á þeim tíma hefur komið út svo gríðarlegt magn af gæðatónlist sem er svo fjölbreytt að það er varla hægt að bera hana saman. Til að kóróna það þá er þessi áratugur og þá sérstaklega fyrri hluti hans sá tími sem ég virkilega týndi mér í tónlistinni og varð ástfangin af henni. Hvernig get ég mögulega valið topp 5 bestu plöturnar úr hundruðum?

Svarið er að ég get það ekki EN ég get sagt ykkur frá fimm plötum sem komu út á þessu tímabili sem heltóku mig svo gjörsamlega að þær breyttu mér eða því hvernig ég hlusta á og met tónlist. Þetta eru plötur sem ég hlustaði svo mikið á og eru svo nátengdar stórum atburðum í lífi mínu að í hvert skipti sem ég set þær af stað þá fæ ég nostalgíusting í magann og er samstundis horfin nokkur ár aftur í tímann.


5. The White Stripes - White Blood Cells (2001)

Ég var á tímabili sannfærð um að Jack White væri merkilegasti tónlistarmaður samtímans (já ég var og er smitten) og með þessari plötu byrjaði ég að falla fyrir honum. Eftir á að hyggja þá er þetta líklega ein sterkasta platan þeirra en hún er líka merkileg fyrir að marka upphaf þess tímabils þar sem þau færðust frá því að vera obscure blúsrokk hljómsveit yfir í að vera stórstjörnur. Þau innsigluðu það vissulega með Elephant en hér byrjaði það og hér fór ég að hlusta.

The White Stripes - We're Going To Be Friends


4. Bon Iver - For Emma, Forever Ago (2007)

Ég er engan veginn ein um það að hafa kolfallið fyrir þessari plötu. Ég held það sé ekki hægt að hlusta á hana án þess að tengjast henni og þykja vænt um hana. Ég hef áður rakið það hér hvers vegna þessi plata skiptir mig svona miklu máli og ég ætla ekkert að fara út í það aftur en ég veit að hún mun fylgja mér út ævina.

Bon Iver - Flume


3. Bright Eyes - I'm Wide Awake It's Morning (2005)

Árið 2005 komu út tvær plötur með Bright Eyes, hin þokkalega Digital Ash In A Digital Urn og hin ómótstæðilega I'm Wide Awake It's Morning. Ég hef hafði aldrei hrifist neitt sérstaklega af tónlist Conor Oberst fram að þessu og hef í raun ekki gert það síðan. Þessi plata er bara einstök og ég tengi svo margar góðar minningar við hana. Ég keypti hana í Amoeba Music í San Francisco í fyrsta alvöru fullorðins sumarfríinu mínu eftir námsmannafátækt áranna á undan. Í fyrsta sinn sem ég hlustaði á hana var ég í svörtum Ford Mustang blæjubíl að keyra meðfram sjónum frá San Francisco til Monterey... having the time of my life.

Bright Eyes - Old Soul Song (For The New World Order)


2. Wolf Parade - Apologies To The Queen Mary (2005)

Þetta er plata sem kom á réttum stað á réttum tíma, eða kannski kom hún af því að meðlimir hljómsveitarinnar voru á réttum stað á réttum tíma. Montréal tónlistarsenan var að springa úr frumlegheitum og æðislegheitum og Wolf Parade voru óskadrengirnir sem gátu ekki gert neitt rangt. Þvílík plata! Ég keypti mitt eintak reyndar í monster molli í Fort Worth í Texas af öllum stöðum sem er eiginlega alveg absúrd miðað við hvernig tónlist þetta er og hvaðan hún kemur. Ég hef ekki oft fallið svona hratt fyrir plötu og ég hef sjaldan verið eins spennt og hamingjusöm á tónleikum eins og þegar Wolf Parade spiluðu á Airwaves 2006. Mmmm.

Wolf Parade - Shine A Light


1. The Libertines - Up The Bracket (2002)

Veturinn 2002-2003 uppgötvaði ég virkilega tónlistarnördið í mér. Áður hafði ég týnt mér í stökum hljómsveitum og plötum og eyddi unglingsárunum vissulega lokuð inni í herbergi með headphones á hausnum en árið 2002 fór ég fyrst að downloada tónlist (skamm). Áður hafði ég splæst á mig plötu þegar fjárhagurinn leyfði en nú var skyndilega svo mikið í boði og ég hlustaði á allt sem ég komst yfir.

Þennan vetur var ég á lokaári í háskólanum og bjó skítblönk í aukaherberginu hjá bróður mínum því ég hafði ekki efni á því að leigja lengur. Það var brjálað að gera í skólanum hjá mér og ég hafði þar að auki tekið að mér dæmatímakennslu svo ég eyddi flestum kvöldum lokuð inni í herbergi með tölvuna og tónlistina. Það eru svo margar frábærar plötur sem ég tengi við þennan tíma sem ættu alveg erindi á þennan lista og þar ber hæst Turn On The Bright Lights með Interpol og Yankee Hotel Foxtrot með Wilco. Það var þó engin plata sem greip mig jafnmikið og Up The Bracket og engin hljómsveit sem heltók mig jafnmikið og The Libertines. Ég hlustaði ENDALAUST á þessa plötu og fannst Carl Barat og Pete Doherty u.þ.b. svölustu menn á jarðríki.

Besta orðið til að lýsa þessari plötu er shambolic. Hún rétt hangir saman á límingunum og maður hefur alltaf á tilfinningunni að þeir séu að fara út af sporinu en einhvernveginn veltist þetta áfram og verður alltaf meiri og meiri snilld. Auðvitað gat þetta aldrei gengið til lengdar og allt ruglið og rokkið og rólið sem gerði þessa plötu svo frábæra og þá félaga svo heillandi varð til þess að allt sprakk í loft upp með stórum hvelli. Það gerir plötuna bara ennþá betri... einstakt móment sem verður aldrei hægt að kalla fram aftur.

The Libertines - Horror Show

No comments: