Tuesday, May 13, 2008

The Black Keys

Jæja þá er ég (því miður) komin heim frá Montréal þar sem ég heimsótti tvo fimmtu hluta topp fimm veldisins. Borgin, veðrið, maturinn, tónlistin og síðast en ekki síst gestgjafarnir voru yndisleg og mig langaði bara ekkert að fara heim eftir aðeins viku. Við afrekuðum að fara á frábæra tónleika með The Kills sem voru yfirburða svöl eins og við var að búast. Við íhuguðum að fara að sjá Foals en vorum óviss og löt svo við köstuðum upp á það og peningurinn sagði rólegheit en ekki rokk. C'est la vie.


Ég sleppti mér ekkert í tónlistarkaupunum en náði þó að versla smá bunka af diskum. Ég hef ekkert náð að hlusta á þá að ráði en ég setti þó nýja Black Keys diskinn í græjurnar um helgina og hann hefur fengið að rúlla nokkrum sinnum þar sem ég hef ekki nennt að skipta um disk (hvað get ég sagt... ég er löt). Það er skemmst frá því að segja að þessi plata venst hratt og vel og ég er mjög hrifin af henni. Ég hef reyndar alltaf verið veik fyrir blús þeirra félaga en mér finnst þessi fimmta plata þeirra vera nokkuð melódískari og fallegri en fyrri plötur sem er bara jákvætt. Það má nú samt segja að miðað við að þessi plata hafi byrjað sem samstarf við Ike Turner og að hún er pródúseruð af Danger Mouse þá sé stefnubreytingin mun minni en maður hefði haldið. Ég mæli hiklaust með þessari.

The Black Keys - Strange Times af Attack & Release
The Black Keys - Things Ain't Like They Used To Be af Attack & Release
The Black Keys - Hard Row af Thickfreakness (gamalt æði!)

1 comment:

Krissa said...

Hard Row stendur alltaf fyrir sínu! ;)

En mér finnst sú nýja góð og bara verða betri með hverri hlustun :D