Monday, August 27, 2007

Reyfi - Ólöf Arnalds, Budam, Jens Lekman


Ég fór ásamt fríðu föruneyti á tónleika við Norræna húsið á föstudagskvöldið. Ólöf Arnalds steig fyrst á stokk og ég var nægilega hrifin til að langa í diskinn hennar (þó ég hafi reyndar gleymt að tékka hvort hann væri til sölu þarna... auli). Þetta greip mig ekkert allt við fyrstu hlustun en mér fannst lögin Englar og dárar, Í nýju húsi og Við og við standa upp úr en það var kannski ekki að marka þar sem ég hef hlustað dálítið á fyrstu tvö áður. Merkilegast þótti mér eiginlega að hún skyldi spila á beltisdýrsgítar en svoleiðis hljóðfæri er einmitt til heima hjá mömmu og pabba!

Eftir rólega tóna Ólafar steig hinn færeyski Budam á svið ásamt fimm manna hljómsveit. Ég var bjartsýn framan af og reyndi að láta hnussið í ónefndum sessunauti mínum ekki trufla mig en ég gafst fljótlega upp og hnussaði með honum. Ég vil taka fram að þetta voru greinilega allt mjög færir tónlistarmenn og hljóðfæraleikurinn var alltaf alveg pottþéttur og á tíðum mjög skemmtilegur (oft mjög Waits-skotinn). Aftur á móti fannst mér lagasmíðarnar ekkert til að hrópa húrra fyrir, textarnir voru ýmist hræðilega klisjukenndir eða slepjulega klúrir (ef ekki bæði í einu) og þetta virkaði allt bara tilgerðarlegt. Ég meina gaurinn notaði rímið "We'll get so high, we're gonna fly" í tveimur aðskildum lögum... svo ég vitni í Krissu þá segi ég bara DÚDDI!!!

Eftir þetta var eins og ferskur andvari að fá elskulegan Jens Lekman á sviðið og hann var svo skemmtilegur og hress að hann fékk mig alveg til að gleyma stununum í Budam. Hann mætti með tvær stúlkur (aðra á bassa og hina á trommur) og eldri mann á píanóinu og svo slóst Benni Hemm Hemm í hópinn ásamt fjórum lúðrablásurum svo það var mikið stuð og mikið gaman. Jens tók fullt af skemmtilegum lögum, brosti hringinn og var bara svo ótrúlega einlægur og frábær. Skemmtilegast þótti mér að heyra hráa útgáfu af Black Cab, "nýja" lagið The Opposite of Hallelujah og Maple Leaves sungið á sænsku. Núna get ég hreinlega ekki beðið eftir að Night Falls Over Kortedala komi út. Jens þú ert æði!

Jens Lekman - The Opposite Of Hallelujah

Jens Lekman - Maple Leaves

No comments: