Dandy – The Kinks
Eins og allir góðir menn vita er hljómsveitin The Kinks viðbjóðslega skemmtileg. Mörg lög með karlmannsnöfn í titlinum koma í hugann þegar Kinks ber á góma; David Watts, Johnny Thunder, Arthur og Do you remember Walter? eru til að mynda öll snilld. Ég kýs hins vegar að nefna til leiks lagið Dandy frá 1966 þar sem Ray Davies syngur til bróður síns, Dave Davies (eða Dandy). Ray var þarna ráðsettur fjölskyldufaðir sem leit öfundaraugum á litla Dave, einn helsta glaumgosa Lundúna. Þess má til gamans geta að ég hef talað við Ray Davies í síma þökk sé góðu framtaki gamals félaga míns, Valla pulsu.
Cousin Kevin – The Who
Kevin frændi er alræmdur hrekkjalómur sem stríðir Tommy litla í gríð og erg í meistarastykkinu Tommy. Bassafanturinn John Entwistle samdi lagið og syngur en fyrirmyndin að frændanum vonda var drengur sem bjó á móti Entwistle í æsku. Á Tommy má einnig finna annað lag eftir Entwistle, Fiddle About, er fjallar um hrottann Uncle Ernie sem misnotar Tommy litla kynferðislega (textinn kannski pínu Townsend-legur?). Því er óhætt að segja að Entwistle hafi verið ansi vondur við litla málleysingjann Tómas í verkinu.
Stagger Lee – Nick Cave and the Bad Seeds
Stagger Lee var mikill morðingi og hafa ófá lög og textar fjallað um þennan vandræðapésa. Lagið er af Morðballöðum Cave og kumpána þar sem 64 eru drepnir í 10 lögum.
Black Jack David – The Incredible String Band
Black Jack David er eitt af þekktari lögum skosku sveitarinnar The Incredible String Band og er af plötunni Earthspan frá árinu 1972. Lagið er eftir Mike Heron, annan af burðarásum sveitarinnar, en hann kom til Íslands árið 2003 og hélt tónleika í Íslensku óperunni. Lagið um skógarmanninn kvensama Black Jack David var fyrsta uppklappslag ef ég man rétt.
Jumpin’ Jack Flash – The Rolling Stones
Einu sinni fékk Mick að gista hjá Keith Richards í sveitasetrinu hans. Eldsnemma um morgun gekk skuggalegur maður framhjá glugganum í herbergi Mick sem vaknaði býsna smeykur við atganginn úti. Mick stökk framúr og þráspurði Keith hvaða maður væri að dandalast fyrir utan gluggann. “Oh, that’s just Jack, just jumpin’ Jack”, svaraði Keith og átti við garðyrkjumanninn sinn. Síðan sömdu þeir vinirnir lag.
Friday, February 8, 2008
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment