Friday, February 22, 2008

Topp 5 litalög - Kristín Gróa

Ég varð svo ringluð á öllum þessum litum að ég ákvað bara að velja mér einn lit og halda mig við hann. Það kemur auðvitað bara einn litur til greina þegar ég á í hlut...

5. Psychedelic Furs - Pretty In Pink af Talk Talk Talk (1981)

Þetta lag minnir óneitanlega á ódauðlegu unglingamyndina Pretty In Pink enda var lagið endurupptekið fyrir hana. Það er fyrir vikið smá hallæris 80's keimur af þessu og það er bara fínt.

4. Califone - Pink & Sour af Roots & Crowns (2006)

Eitt besta lagið á hinni frábæru Roots & Crowns sem ég asnaðist ekki til að kaupa fyrr en ári eftir að hún kom út. Ég mæli alveg eindregið með því að þið tékkið á þessari plötu ef þið hafið ekki gert það nú þegar.

3. The Shins - Pink Bullets af Chutes Too Narrow (2003)

Ég var búin að steingleyma þessu lagi þó ég hafi hlustað óheyrilega mikið á það á sínum tíma en ég er glöð að ég rifjaði það upp því það er ósköp fallegt.

2. The Flaming Lips - Yoshimi Battles The Pink Robots pt. 1 af Yoshimi Battles The Pink Robots (2002)

Þetta lag minnir mig alltaf á síðasta árið mitt í háskólanum þegar ég bjó skítblönk heima hjá bróður mínum og gerði ekkert nema læra og fara yfir heimadæmi. Ég veit ekki hvernig mér datt í hug að taka 21 einingu og sjá um dæmatímakennslu í fimmtíu manna kúrsi á útskriftarönn en ég hef alveg fengið betri hugmyndir. Það eina góða við þessa fjóra mánuði sem ég eyddi innilokuð með tölvunni er að ég hlustaði á alveg rosalega mikið af góðri tónlist og þar á meðal Flaming Lips.

1. Nick Drake - Pink Moon af Pink Moon (1972)

Ekki veit ég hvað maðurinn var að meina með þessu lagi eða ég er allavega ekki nógu djúp til að ná textanum. Lagið er samt gott, svo gott að það nær toppsætinu.

No comments: