William Shatner hefur lifað tímana tvenna og fólk tengir hann við ýmsar persónur, James T. Kirk, T.J. Hooker, Denny Crane og jafnvel fleiri en oft gleymist að nefna tónlistarmanninn William Shatner. Hér verður bætt úr því.
Lucy In The Sky With Diamonds
Tónlistarferill Shatners hófst fyrir alvöru með "spoken word" plötunni The Transformed Man sem kom út 1968. Með sinfóníu á bak við sig rabbaði hann yfir sixties sækadelik tóna og skapaði sinn sérstaka tal/söngstíl sem hefur verið einkennismerki hans alveg síðan.
Mr. Tambourine Man
Af fyrrnefndum frumburði kappans og óneitanlega með frumlegri útgáfum af laginu. Shatner blaðrar og gaular á móti bakraddasöngkonum og lúðrum. Nær að ljá laginu ringulreið sem var ekki til staðar fyrir á ótrúlegan hátt. Nær hámarki á síðustu sekúndunum í því sem virðist örvæntingarfullt ákall til Tambúrínumannsins.... magnað.
Rocketman
Einn af hátindum tónlistarferils kappans er sjónvarpsupptaka af honum að flytja lag Bernie Taupins og Elton Johns á Science Fiction Film Awards 1978. Með hjálp klippitækni síns tíma tjáir hann mismunandi karaktera sögumannsins á eftirminnilegan hátt. Hljóð og myndir segja meira en orð og því mæli ég með myndklippunni í tenglinum.
I Am Canadian
Í I am Canadian má greina ákveðið uppgjör við fortíðina, ferilinn og ímyndina sem hefur skapast í kring um persónuna William Shatner. Þó húmorinn hafi alltaf verið hans helsta vopn og mörgum virst hann aðeins svamla í grunnu lauginni er ákveðinn drungi og alvara sem leynist í skugganum.
Common People
Öflug afturkoma Shatners með plötunni Has Been frá áriu 2004 kom honum aftur á tónlistarkortið eftir ágætis pásu. Á 73 ári sínu gerði hann plötu í teymi við Ben Folds og gestalistamenn á borð við Henry Rollins, Aimee Mann, Nick Hornby og fleiri. Þó mest beri á útgáfu hans á Common People var restin af lögunum samin sérstaklega fyrir plötuna og flestir textarnir eftir Shatner sjálfann.
Það má eflaust segja margt um William Shatner en ef það er eitthvað sem hann hefur þá er það stíll. Maðurinn er einlægur, sjálfum sér samkvæmur og óhræddur við að hlæja að sjálfum sér á kaldhæðin hátt. En það er einmitt snilldin á bak við hann, það er ekki það hann segir sem er svo merkilegt heldur hvernig hann segir það.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment