Friday, February 29, 2008

Topp 5 Neil Young lög - Kristín Gróa


Það kemur kannski ekki mikið á óvart að ég vel Neil Young, ekki bara af því hann er uppáhalds tónlistarmaðurinn minn heldur er ég þar að auki að fara á tónleika með honum (verð reyndar væntanlega búin að því þegar þetta birtist) í fyrsta skipti á fimmtudaginn (uhh... í gær)! Ég get auðvitað ekkert valið fimm bestu Neil Young lögin en ég ætla að gera tilraun til að velja góð lög sem sýna ólíkar hliðar á kallinum.

5. Dirty Old Man af Chrome Dreams II (2007)

Byrjum á lagi af nýjustu plötu Young sem kom út í lok síðasta árs. Mér finnst alveg ótrúlegt að einhver geti gefið út plötu af þessum kalíber eftir fjörutíu ár í bransanum en svona er Neil Young bara. Það er líka eitthvað við að heyra rúmlega sextugan kallinn syngja "I'm a dirty old man".

4. After The Goldrush af After The Goldrush (1970)

Hér kemur rólegi Neil. Mér hefur alltaf þótt vænt um þessa plötu því hún er sú fyrsta sem ég hlustaði á með honum og varð alveg heilluð við fyrstu hlustun.

3. Cinnamon Girl af Everybody Knows This Is Nowhere (1969)

Lag af annari plötu Young og þeirri fyrstu sem hann tók upp með Crazy Horse. Þó það sé fullmikil einföldun er nánast hægt að skipta plötunum hans í tvennt, með Crazy Horse og án Crazy Horse. Rokkað eða rólegt. Það er ekki hægt að segja að annað sé betra en hitt... það er bara öðruvísi.

2. Borrowed Tuna af Tonight's The Night (1975)

Þetta lag er af uppáhalds Neil Young plötunni minni. Hún er ekki tæknilega fullkomin og röddin hans hefur virkilega verið í betra formi en hún er svo viðkvæm og það er svo mikil tilfinning í henni. Platan kom út skömmu eftir lát Crazy Horse gítarleikarans Danny Whitten og rótarans Bruce Berry sem útskýrir auðvitað hvað er í gangi á þessari plötu. Alveg hreint ótrúlegt meistaraverk.

1. Cortez The Killer af Zuma (1975)

Eitt af alltime uppáhalds lögunum mínum. Ég reifst einu sinni mikið við vin minn um þetta lag. Hann sagði að Dave Matthews Band útgáfan væri miklu betri en orginallinn og ég varð svo hneyksluð og móðguð fyrir hönd Neil Young að ég þvertók fyrir það. Vini mínum fannst svo fáránlegt að ég skyldi afneita hans skoðun algjörlega án þess að hafa heyrt lagið og við rifumst um þetta í margar vikur þangað til ég gerði mér sérferð heim til hans til að horfa á vídjó af þessum ósköpum. Þegar það var búið sagði ég "sko ég vissi það, orginallinn er betri" og fór. Dave Matthews Band? Please...

1 comment:

Krissa said...

Bwahaha DAVE MATTHEWS band? Öss! Hvaða vinur var þetta eiginlega? ;P

Annars er Dave Matthews búinn að vera ansi oft í umræðunni hér í Montréal undanfarna daga, síðast í dag. Við komumst semsagt að því að ég Vignir veit hvernig Dave Matthews lítur út en ég ekki. Aftur á móti veit ég hvernig Ólafur Elíasson lítur út en Vignir ekki. Vigni fannst það fullkomlega skiljanlegt og stakk upp á prófi, að við stoppuðum 10 manneskjur úti á götu og spyrðum hvort þær þekktu þessa tvo í útliti. PWAH! Jájá ;)