Friday, February 1, 2008

Topp 5 kvenmannsnafnalög - Kristín Gróa

Að vera veðurteppt í Færeyjum seinkar listanum en ég komst heim á endanum svo hér kemur hann! Það eru svo mörg lög sem innihalda kvenmannsnöfn í titlinum að ég varð alveg ringluð á að hugsa um þennan lista. Til að gera þetta aðeins bærilegra ákvað ég að takmarka mig við lög sem heita bara nafninu... svo Roxanne kom til greina en Sheila Take A Bow ekki.

5. Mark Ronson feat. Amy Winehouse - Valerie

Það er víst einhver acoustic útgáfa af þessu sem hefur verið í spilun í útvarpi en þar sem ég er svo út úr lúppunni hef ég ekki heyrt hana. Mér finnst þessi útgáfa hins vegar alveg killer enda eru hér bæði fiðlur, lúðrar, handaklapp og þessi svakalega söngrödd.

4. The Kinks - Lola


Þetta lag fær fjórða sætið til heiðurs henni Lólu minni sem hefur reynst stoð mín og stytta síðustu mánuði. Hún er alltaf í góðu skapi, er alltaf þakklát þegar ég sinni henni og er aldrei með neitt vesen. Lóla, þú ert besti gullfiskur sem stúlka gæti óskað sér.

3. FM Belfast - Synthia

Alltaf þegar ég heyri þetta lag fæ ég óstjórnlega löngun til að vera stödd á hip bar með glas í hendi að dansa eins og enginn sé morgundagurinn. Hei en það er að koma helgi svo það er aldrei að vita...

2. Them - Gloria

Þetta lag náði toppsætinu á "topp 5 lög sungin af rauðhærðum" listanum mínum fyrir nokkru síðan en ég stenst bara ekki freistinguna að setja það á þennan lista líka. Hvernig er hægt að syngja af svona mikilli ákefð?

1. Leonard Cohen - Suzanne


Ég hef svo sem ekki mikið um þetta lag að segja nema ég fæ alltaf gæsahúð þegar ég heyri það og það nægir til að fá toppsætið.

No comments: